Tugir horfðu á nauðgun á Facebook

AFP

Lögreglan í Chicago í Bandaríkjunum leitar 5-6 karlmanna sem grunaðir eru um að hafa nauðgað 15 ára stúlku í borginni og sýnt það beint á samfélagsmiðlinum Facebook. Talið er að tugur manns hafi fylgst með á netinu á meðan mennirnir nauðguðu stúlkunni.

Fram kemur á fréttavefnum USA Today að stúlkan hafi horfið á sunnudaginn en rannsóknarlögreglumenn hafi síðan fundið hana í gær. Daginn áður hafði móðir stúlkunnar gengið upp að lögreglustjóranum Eddie Johnson þar sem hann var að yfirgefa blaðamannafund og sýnt honum skjáskot af myndbandinu af árásinni.

Myndbandið er ekki lengur aðgengilegt á Facebook en sem fyrr segir er talið að tugir hafi horft á það en enginn hafði hins vegar samband við yfirvöld vegna málsins. Haft er eftir talsmönnum Facebook í fréttinni að fyrirtækið geti ekki tjáð sig um einstök mál. Það taki hins vegar við tilkynningum um slíkt efni allan sólarhringinn.

„Slíkir glæpir eru hræðilegir og við leyfum ekki slíkt efni á Facebook,“ segir í yfirlýsingu frá fyrirtækinu. „Við tökum ábyrgð okkar á því að fólk sé öruggt á Facebook mjög alvarlega og munum fjarlægja myndbönd sem sýna kynferðisárásir og er deilt til þess að lofsama ofbeldi.“

Talsmaður lögreglunnar, Anthony Guglielmi, segir rannsókn málsins ganga vel og unnið sé að því að bera kennsl á þá sem átt hafi í hlut. Fram kemur í fréttinni að með tilkomu Facebook Live og hliðstæðs möguleika á samfélagsmiðlinum Twitter færist í vöxt að ofbeldisverk séu sýnd í beinni útsendingu á netinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert