21 dáið á skömmum tíma

Daglegt líf í Kína.
Daglegt líf í Kína. AFP

Lögregluyfirvöld í Kína hafa handtekið framkvæmdastjóra dvalarheimilis fyrir heimilislausa, aldraða og fólk með andlega fötlun eftir að í ljós kom að 21 hefur dáið á heimilinu í vetur. Þeirra á meðal var 15 ára einhverfur drengur.

Rannsókn leiddi í ljós að aðbúnaður á Lianxi-dvalarheimilinu í Shaoguan í Guangdong uppfyllti ekki öryggiskröfur. Fjölmiðlar hafa ekki nafngreint framkvæmdastjórann en fregnir herma að fjárfestir, lögmaður og tveir starfsmenn séu einnig í haldi.

Samkvæmt fjölmiðlum hefur dvalarheimilið verið yfirfullt og þá hefur hreinlæti verið ábótavant.

„Voru þetta morð? Stungu þeir fjárveitingum frá stjórnvöldum í vasann í stað þess að verja þeim í sjúklingana?“ spyrja menn á samfélagsmiðlum.

Heimilið var einkarekið en naut stuðnings yfirvalda á staðnum, samkvæmt China Daily. Lei Wenfeng, 15 ára pilturinn, var vistaður á heimilinu eftir að hafa stungið af að heiman og týnst en hann lést mánuði eftir að hann flutti inn.

Dánarorsök hans hefur ekki verið gefin upp.

Stjórnvöld hafa fyrirskipað eftirlit með dvalarheimilum í kjölfar málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert