29 fangar struku úr fangelsi

Fangarnir komust undan í gegnum 40 metra löng göng.
Fangarnir komust undan í gegnum 40 metra löng göng. AFP

Að minnsta kosti 29 fangar sluppu úr fangelsi í norðurhluta Mexíkó í gegnum 40 metra löng göng, yfirvöld í Mexíkó greindu frá þessu í dag. Lögreglan náði að handsama aftur 12 fanganna. Fangelsið er í borginni Ciudad Victoria á Tamaulipas-svæðinu.  

Göngin voru grafin á bak við fangelsið á svæði sem fangarnir hafa haft aðgang að í mörg ár, sagði Luis Alberto Rodriguez, talsmaður öryggismála fangelsisins. Á flóttanum myrtu fangarnir að minnsta kosti eina manneskju þegar þeir stálu bíl til að komast undan.

Þess má geta að í síðustu viku struku fimm fangar, sem eru liðsmenn glæpagengisins Sinaloa, einnig úr fangelsi í norðvesturhluta Mexíkó. Einn af þeim nefnist Juan Jose „El Negro“ Esparragoza og er sonur stofnanda Sinaloa-glæpagengisins. 

Á þessu svæði sem er nálægt landamærum Bandaríkjanna liggur þekkt smyglleið eiturlyfja yfir til Bandaríkjanna.   

Á svæðinu takast glæpa­gengi á um yf­ir­ráð yfir eit­ur­lyfja­smyglleiðum til Banda­ríkj­anna og er gengið Los Zetas eitt af þeim. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert