Fólk vart um sig eftir árásina

Götum í kringum breska þinghúsið var lokað eftir árásina, en …
Götum í kringum breska þinghúsið var lokað eftir árásina, en Westminster er fjölmennur staður og vinsæll meðal ferðamanna. t AFP

„Fólk er slegið og í neðanjarðarlestinni í morgun þá var þögn,“ segir Atli Már Sigurðsson, staðgengill sendiherra Íslands í Bretlandi. Sendiráð Íslands er ekki langt frá Westminster, þar sem fjórir létust og yfir 40 slösuðust er maður ók inn í hóp fólks og stakk að því loknu lögreglumann til bana áður en hann var felldur af lögreglu.

„Í lestinni í morgun varð maður var við að fólk er vart um sig. Það horfir í kringum sig, en segir fátt,“ segir Atli Már, en starfsfólk sendiráðsins og þeir sem reka erindi utanríkisráðuneytisins eiga oft erindi til Westminster. „Þetta er fjölmennur staður og mikið um ferðmenn, þannig maður hugsaði náttúrulega til þess hvort einhver hefði getað verið á svæðinu þegar þetta gerðist.“ Sjálfur var hann hins vegar ásamt öðru sendiráðsstarfsfólki í sendiráðinu er árásin átti sér stað.

Ekkert bendir til þess að Íslendingar séu í hópi hinna slösuðu og segir Atli Már samskiptareglur gera ráð fyrir að búið væri að hafa samband við íslenska utanríkisráðuneytið ef svo væri.

Hann hafi hins vegar sjálfur heyrt af nokkrum sem voru á leið að Westminster þegar árásin var gerð og það fólk hafi verið fljótt að breyta áætlunum sínum er það frétti af árásinni.

Atli Már Sigurðsson, staðgengill sendiherra Íslands í London, segir Lundúnabúa …
Atli Már Sigurðsson, staðgengill sendiherra Íslands í London, segir Lundúnabúa vara um sig eftir árásina. Ljósmynd/Atli Már
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert