Heyrði marga öskra og hrópa

Sjónarvottar að árásinni í Westminster í gær lýsa óðagoti og hræðslu sem greip um sig. Kona sem vinnur í nágrenninu segist hafa haldið að slys hefði átt sér stað en heyrði svo hvelli sem reyndust vera byssuskot.

„Ég var í vinnunni sem er skammt frá þar sem atvikið átti sér stað og það fyrsta sem ég heyrði var bíll að aka á girðinguna við þinghúsið,“ segir kona í samtali við AFP-fréttastofuna. „Umferðin gekk áfram sinn vanagang. Þess vegna hélt ég að þetta væri hræðilegt slys en svo sá ég einhvern liggja við hliðina á bílnum. Þá hélt ég að ekið hefði verið á hjólreiðamann því þarna er akrein fyrir reiðhjól. Ég heyrði hvelli sem ég veit núna að voru byssuhvellir. Þá fór ég að átta mig á því að þetta væri eitthvað alvarlegt. Svo heyrði ég marga öskra og hrópa og margir lögreglumenn komu á svæðið alls staðar að. Þegar bílarnir komu gat ég ekki lengur fylgst með því sem var í gangi. Stuttu seinna þurfti að rýma bygginguna sem ég var í.“

Ungur maður sem var á svæðinu þegar árásin var gerð segir alla hafa verið í áfalli.

„Þetta var áfall. Ég sá tvær konur hlaupa grátandi. Allir voru í áfalli, það vissi enginn hvað hefði eiginlega gerst og hvort eitthvað meira ætti eftir að gerast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert