Hver eru fórnarlömb árásinnar?

Lögreglumaðurinn Keith Palmer og kennarinn Aysha Frade létust í árásinni …
Lögreglumaðurinn Keith Palmer og kennarinn Aysha Frade létust í árásinni í London í gær.

Þrír létust í hryðjuverkaárásinni sem gerð var við þinghúsið í London í gær; tveir óbreyttir borgarar og einn lögreglumaður. Fjörutíu særðust er árásarmaðurinn ruddi sér leið á bíl í gegnum mannfjöldann sem var göngu á Westminsterbrúnni. Hann ók að því loknu að þinghúsinu þar sem hann stakk óvopnaðan lögreglumann til bana. 

Þetta er það sem vitað er um fórnarlömbin:

Lögreglumaðurinn sem var stunginn til bana hét Keith Palmer og var 48 ára. Hann átti eiginkonu og börn. Hann vann við öryggisgæslu við þinghúsið.

Bretar hafa í þúsundavís vottað fjölskyldu hans samúð sína. Palmer var óvopnaður og á hann var ráðist rétt við hlið þinghússins. Hann hafði verið lögreglumaður í fimmtán ár. 

Áður fyrr gegndi hann herþjónustu og um tíma við hlið James Cleverly sem er nú þingmaður á breska þinginu. Cleverly skrifaði á Twitter um vin sinn: „Elskulegur maður, vinur. Ég er harmi lostinn.“

Tveir létust á brúnni. Annað fórnarlambanna hefur verið nafngreint, 43 ára kona sem hét Aysha Frade. Hún var breskur ríkisborgari en fæddist á Spáni. Hún kenndi spænsku í skóla í London.

Fljótlega eftir að árásin var gerð sagði læknirinn Coleen Anderson, sem stödd var á brúnni, að hún hefði úrskurðað konu látna á vettvangi.

„Hún lá undir hjólum strætisvagns,“ sagði Anderson. Ekki er ljóst hvernig dauða konunnar bar nákvæmlega að en mikið öngþveiti skapaðist á brúnni er árásarmaðurinn ók bíl sínum þar um á mikilli ferð.

Fjölmargir hafa vottað aðstandendum fórnarlambanna samúð og blóm liggja víða …
Fjölmargir hafa vottað aðstandendum fórnarlambanna samúð og blóm liggja víða við Westminsterbrúna. AFP

Þriðja fórnarlambið var karlmaður á sextugsaldri. Frekari upplýsingar um hann hafa ekki verið gefnar. Hann lést einnig á brúnni.

 Westminsterbrúin er vinsæll ferðamannastaður. Þar ganga margir um í leið sinni að þinghúsinu og til að skoða klukkuturninn Big Ben sem blasir við frá brúnni. Meðal þeirra sem særðust voru nokkrir útlendingar, m.a. ferðamenn. 

 Lögreglan segir að um 29 af þeim fjörutíu sem særðust hafi hlotið aðhlynningu á sjúkrahúsi. Sjö er enn alvarlega slasaðir.

Meðal hinna særðu er þrír franskir menntaskólanemar sem voru í skólaferðalagi í London. Tveir þeirra hlutu beinbrot en eru ekki í lífshættu. 

Einnig særðust fimm suðurkóreskir ferðamenn í árásinni á brúnni, fjórar konur og einn karl, öll á fimmtugs- og sextugsaldri. Talið er að þau hafi dottið og orðið undir mannfjöldanum í öngþveitinu sem skapaðist á vettvangi. 

Konu sem hlotið hafði alvarlega áverka var bjargað upp úr Thames-ánni skammt frá Westminsterbrúnni eftir árásina. Á myndböndum sést hvar hún fellur í ánna af brúnni. Hvorki nafn hennar né þjóðerni hefur ekki verið uppgefið.

Á meðal slasaðra eru einnig Portúgali, Kínverji og tveir Rúmenar, að sögn yfirvalda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert