Var á leið að sækja börnin í skólann þegar hún lést

Aysha Frade var á leið að sækja börn sín í …
Aysha Frade var á leið að sækja börn sín í skólann þegar árásarmaðurinn ók á hana. skjáskot/Sky News

Breska lögreglan hefur nú gefið upp nafn konunnar sem lést í hryðjuverkaárásinni við Westminster í gær. Konan hét Aysha Frade og var 43 ára spænskukennari að sögn Sky News. Hún var á leið til að sækja dætur sínar, 8 og 11 ára, úr skóla þegar árásarmaðurinn ók á hana og fleiri vegfarendur á gangstétt Westminster-brú.

Frade fæddist í Bretlandi en á rætur að rekja til Betanzos á norðurhluta Spánar og er hún talin hafa kennt spænsku í skóla nærri árásarstaðnum. 

Áður var búið að greina frá nafni lög­reglu­manns­ins sem lést er árásarmaðurinn stakk hann með tveimur hnífum eftir að hafa ekið inn í fólksfjöldann. Lögreglumaðurinn hét Keith Pal­mer og var 48 ára eig­inmaður og faðir. Hann hafði starfað í lög­regl­unni í fimmtán ár. 

Auk þeirra Palmers, Frade og árásarmannsins, þá lést karlmaður á sex­tugs­aldri einnig er árásarmaðurinn ók á hann. Nafn hans hefur enn ekki verið gefið upp.

Rúmlega 40 til viðbótar særðust í árásinni og er ástand sjö þeirra enn talið al­var­legt. Meðal þeirra sem særðust í árás­inni voru þrjú frönsk skóla­börn og fimm Suður-Kór­eu­menn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert