Mafíu-ferðir vekja reiði á Sikiley

Frá Sikiley.
Frá Sikiley. Wikipedia/Giampaolo Macorig

Ferðaskrifstofa á Sikiley hefur vakið mikla reiði hjá yfirvöldum og ættingjum fórnarlamba með því að bjóða upp á mafíu-túra, sem gagnrýnendur segja upphefja skipulagða glæpastarfsemi.

Easy Trapani býður upp á heilsdags og hálfsdags túra sem fela m.a. í sér heimsóknir á mafíusöfn og heimili þar sem vitað er að mafíustjórar hafi haldið til. Þá er boðið upp á pasta og kjötbollu máltíðir.

Maria Falcone, systir dómara sem var myrtur af mafíunni árið 1992, hefur fordæmt túrana og segir þá móðgun við fórnarlömb mafíunnar og kjaftshögg fyrir þá sem vinna að því á hverjum degi að uppræta mafíumenninuna á svæðinu.

Gianni Grillo, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sem leiðsegir sjálfur ferðamönnum um þorp á borð við Corleone, segir hins vegar á heimasíðu Easy Trapani að ferðirnar séu til þess gerðar að vekja fólk til umhugsunar. Þær dýpki skilninginn á glæpum Cosa Nostra, sem hafi enn áhrif á sikileyskt samfélag.

„Mafían drepur, það gerir þögnin líka,“ segir á heimasíðunni en tilvitninun er fengin að láni hjá blaðamanninum Peppino Impastato, sem fordæmdi mafíuna og var myrtur árið 1978, 30 ára gamall.

Vito Damiano, borgarstjóri Trapani, hefur krafist þess að vefsíðu fyrirtækisins verði lokað. „Þetta er brjálæði, þetta er móðgun við heila borg,“ var haft eftir honum í dagblaðinu Repubblica.

Ferðapakkarnir sem Easy Trapani býður upp á geta falið í sér samtal við blaðamann sem hefur fjallað um mafíuna og heimsókn í hús þar sem Toto Riina, stjóri stjóranna, og Bernardo Provenzano hafa búið. Provenzano er þekktur undir viðurnefninu „traktorinn“, þar sem hann er sagður stráfella fórnarlömb sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert