Heilu samfélögin orðið útundan

Höfuðstöðvar Sameinuðu Þjóðanna.
Höfuðstöðvar Sameinuðu Þjóðanna. Wikipedia

Ef undanfarin 25 ár eru skoðuð má sjá miklar framfarir og að almenn lífskjör í heiminum hafa aukist töluvert. Meðal annars lifir fólk lengur að meðaltali, fleiri börn ganga í skóla, tilfellum barnadauða hefur fækkað, fleiri hafa aðgang af heilsugæslu og hreinu vatni og dregið hefur verulega úr fjölda tilvika HIV, malaríu og berklasmita.

Þrátt fyrir þetta hefur þróun lífskjara ekki verið jöfn og hafa samfélagshópar, bæði smærri hópar innan samfélaga og heilu samfélögin, orðið útundan.

Þetta kemur fram í þróunarskýrslu Sameinuðu þjóðanna fyrir árið 2016, Þróun fyrir alla, (Human Development Report 2016: Developement for Everyone) sem birt var í dag. Í skýrslunni er fjallað um hvernig tryggja megi öllum aðkomu og þátttöku í þróun lífsgæða. Er bent á að ákveðnir samfélagshópar,  bæði smærri hópar innan samfélaga og heilu samfélögin, orðið útundan. Í sumum tilfellum hefur lágmarki lífsgæðastuðuls rétt verið náð og í öðrum varla það.

Þá er einnig tekið fram að nýjar áskoranir hafi komið fram á sjónarsviðið, allt frá ójöfnuði til loftslagsbreytinga, farsóttum til fólksflutninga, átökum til ofbeldis vegna öfgaskoðana og hryðjuverkastarfsemi. „Þrátt fyrir þessar áskoranir hefur árangur síðustu 25 ára vakið von um að grundvallarbreytingar séu mögulegar; að hægt sé að bæta lífskjör allra og þar með tryggja afkomu og jafnari tækifæri komandi kynslóða,“ segir í samantekt skýrslunnar.  

Þörf á vitundarvakningu um orsakir jaðarsetningar

Niðurstöður skýrslunnar sýna að þeir hópar sem orðið hafa útundan eða eru jaðarsettir mæti sérstökum hindrunum sem koma í veg fyrir bætt lífskjör þeirra. Í skýrslunni er lögð áhersla á að til þess að tryggja að þróun nái til allra sé brýn þörf á vitundarvakningu um orsakir jaðarsetningar. Slík vitundarvakning sé forsenda leiðréttingar á þeirri kerfisbundnu mismunun sem leyft er að viðgangast.

Bent er á fjögur atriði sem helst hindri að jaðarhópar nái jafnrétti. Það er skortur á umburðarlyndi fyrir félagslegum gildum, hvort sem það tengist trú, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum, kyni eða þjóðerni, aukin eigna- og valdatengsl ákveðinna hópa ýtir undir þá hugmyndafræði að sjálfsmynd og lífsgildi tiltekins hóps séu öðrum æðri, veik samningsstaða eða takmarkaðir möguleikar þeirra í að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á opinberum vettvangi sem gerir það að verkum að þeir hafa ekki þann slagkraft sem þarf til að hafa áhrif á löggjöf og stefnumótun með hefðbundnum aðferðum og þröng skilgreining sjálfsmyndar.

„Á þeim tíma þegar mest er þörf á samstilltu átaki og samstarfi virðast sjálfsmyndir þjóða þrengjast. Brexit er nýlegt dæmi um aðgerð þar sem þjóðernishyggja ryður sér til rúms þegar einstaklingar finna til einangrunar í kjölfar alþjóðlegra breytinga,“ segir í samantektinni.

„Á þeim tíma þegar mest er þörf á samstilltu átaki …
„Á þeim tíma þegar mest er þörf á samstilltu átaki og samstarfi virðast sjálfsmyndir þjóða þrengjast. Brexit er nýlegt dæmi um aðgerð þar sem þjóðernishyggja ryður sér til rúms þegar einstaklingar finna til einangrunar í kjölfar alþjóðlegra breytinga,“ segir í samantektinni. AFP

Jafnframt er bent á að rödd og sjálfstæði séu óaðskiljanlegur hluti lífskjaraþróunar. „Þátttaka í almennum umræðum og mótun eign lífs er grundvallaratriði að þróun lífskjara fyrir alla. Lífskjaraþróun miðar ekki aðeins að frelsi einstaklingsins heldur jafnframt frelsi hópa eða samfélaga því fyrir jaðarsetta getur samtakamátturinn skipt sköpum og verið mun öflugri en einstaklingsframtakið,“ segir í samantektinni og er bætt við að til þess að geta náð til allra og unnið að sameiginlegu markmiði um að bæta þróun og lífskjör allra í heiminum sé mikilvægt að endurskoða hvernig upplýsingaöflun og mati er háttað.

„Nauðsynlegt er að finna leið til að afla aðgreinanlegra gagna sem taka tillit til s.s. staðsetningar, kyns, félagslegrar stöðu, kynþáttar og þjóðernis. En þar má nefna dæmi um hvernig aðgreinanleg gögn eftir kyni eru t.d. mikilvæg fyrir jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna,“ segir í samantektinni.

Stjórnvöld bera ábyrgð

Í niðurstöðum skýrslunnar kemur fram að það séu stjórnvöld sem beri ábyrgð á því að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja þróun fyrir alla. Í fyrsta lagi þurfa stjórnvöld að ná til þeirra sem orðið hafa útundan með því að stuðla að jafnri dreifingu auðs og tryggja það að allir hafi jafnan aðgang að grunnþjónustu. Að auki þarf að líta til framtíðar og tryggja að börn verði fær um að mæta þeim tækifærum sem til staðar eru þegar út á vinnumarkaðinn er komið. Vitnað er í ábendingar Alþjóðabankans um að fyrir hverja krónu sem varið er í grunnskólamenntun skili það sér 6 -17 sinnum tilbaka í formi afkasta vinnumarkaðarins.

Þá þarf að hafa í huga að þrátt fyrir að jaðarhópar eins og fatlað fólk, hinsegin fólk, HIV smitaðir, innflytjendur og frumbyggjar, séu margbreytilegir standa þeir frammi fyrir sömu hindrunum, s.s. mismunun, félagslegri  einangrun, fordómum og þeirri hættu að verða fyrir ofbeldi.

„Þarfir þessara hópa eru engu að síður mismunandi og því er nauðsynlegt að huga að sérþörfum hvers jaðarhóps fyrir sig. Í þriðja lagi þarf sjálfbær þróun að vera viðvarandi. Gera verður ráð fyrir því að sjúkdómsfaraldrar, loftlagsbreytingar og náttúruhamfarir geti auðveldlega dregið úr þróun og þá sérstaklega hjá þeim hópum sem eru viðkvæmastir fyrir,“ segir í samantektinni.

Skólakrakkar í Jemen. Alþjóðabankinn hefur bent á að fyrir hverja …
Skólakrakkar í Jemen. Alþjóðabankinn hefur bent á að fyrir hverja krónu sem varið er í grunnskólamenntun skili það sér 6 -17 sinnum tilbaka í formi afkasta vinnumarkaðarins. AFP

Bætt lífskjör allra raunhæft markmið

Einnig þarf að auka valdeflingu þessara hópa á þann hátt að þeir geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri, barist fyrir réttindum sínum og haft áhrif á þær stefnubreytingar sem þarf til að tryggja þeim mannréttindi og aðgang að réttarkerfinu.        

Skýrslan leggur til aðgerðaráætlun til þess að bæta lífskjör fyrir alla sem er sagt vera raunhæft markmið. Áætlunin felst í því að skilgreina þá og ná til þeirra sem orðið hafa útundan í lífskjaraþróun, að nýta þann fjölda af stefnumiðum sem þegar eru til staðar, jafna stöðu kynjanna, innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og aðra alþjóðasamninga og vinna að endurbótum hins hnattræna kerfis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert