Leita samstarfsmanna Masood

Blóm sem skilið hefur verið eftir til minningar um fórnarlömb …
Blóm sem skilið hefur verið eftir til minningar um fórnarlömb árásarinnar við Westminster. Lögregla hvetja nú alla þá sem þekktu Masood að gefa sig fram. AFP

Breska lögreglan biðlar nú til þeirra sem þekktu Khalid Masood að gefa sig fram. Masood varð fjórum að bana er hann ók bíl á hóp fólks í nágrenni Westminster á miðvikudag og stakk síðan lögregluþjón til bana.

Lögreglan hefur nú greint frá nafni fjórða mannsins sem lést í árás Masood. Maðurinn hét Leslie Rhodes og var 75 ára Lundúnabúi og gluggaþvottamaður á eftirlaunum og var á leið úr sjúkrahúsheimsókn þegar hann varð fyrir bíl Masoods.

Rhodes lést þegar öndunarvélin sem hann hafði verið í frá árásinni var tekinn úr sambandi. Áður var búið að gefa upp nöfn spænskukennarans Ayshu Frade og bandaríska ferðamannsins Kurt Cochran, sem einnig létust eftir að Masood ók á þau, og lögreglumannsins Keith Palmer sem Masood réðist á með tveimur hnífum.

Síðasta myndin af lögregluþjóninum Palmer

Fyrr í dag birti bandaríski ferðamaðurinn Staci Martin mynd af sér með Palmer, sem tekin var um 45 mínútum fyrir árásina.

Lögregluþjónninn Keith Palmer leyfði Staci Martin að taka sjálfu með …
Lögregluþjónninn Keith Palmer leyfði Staci Martin að taka sjálfu með sér þremur korterum áður en hann var myrtur. Skjáskot/Staci Martin

Martin telur líklegt að myndin sé sú síðasta sem var tekinn af Palmer og segir sér bera skylda til að koma myndinni til fjölskyldu hans. „Ég vil bara tryggja að þau eigi hana,“ sagði hún.

50 manns særðust í árásinni og þurfti 31 þeirra meðhöndlunar á sjúkrahúsi við. Ástand tveggja hinna slösuðu er enn alvarlegt og er annar þeirra talinn í lífshættu.

Tveir lögreglumenn eru meðal þeirra sem enn liggja á spítala eftir árásina og sagði Mark Rowley, yfirmaður hjá Scotland Yardmeiðsl þeirra vera „veruleg.“ 

Var Masood hvattur til verksins?

Rowley sagði lögreglu nú óska eftir upplýsingum um samstarfsmenn Masood og þá staði sem hann var nýlega á. „Það kann að vera fólk þarna úti sem hafði áhyggjur af Masood, en sem kunni að einhverjum ástæðum ekki við að deila þeim áhyggjum með okkur,“ hefur fréttavefur BBC eftir Rowley.

Lögreglumenn framkvæma húsleit í Birmingham. Búið er að gera húsleit …
Lögreglumenn framkvæma húsleit í Birmingham. Búið er að gera húsleit á 16 stöðum og enn er verið að leita á fimm. Þá hefur mikið magn tölvuganga verið tekið til rannsóknar. AFP

Lögregla framkvæmdi húsleit á sex stöðum í Birmingham, London og víðar í Bretlandi í gærmorgun.  Rowley segir lögreglu nú hafa framkvæmt húsleit á 16 stöðum og að enn sé unnið að húsleit á fimm stöðum til viðbótar. Þá hefur verið lagt hald á 2.700 muni í tengslum við rannsóknina, m.a. mikið magn tölvugagna.

Tveir til viðbótar voru síðan hnepptir í varðhald í dag í tengslum við rannsókn málsins og eru því alls níu manns á aldrinum 21-58 ára í haldi vegna gruns um að þau hafi aðstoðað við „undirbúning hryðjuverks“. Einni konu sem handtekinn var í gær hefur hins vegar verið sleppt gegn tryggingu.

Rowley neitaði að tjá sig frekar um handtökurnar í dag, að öðru leyti en því að fólkið hefði verið handtekið í Midland-sýslu.

Hann sagði hins vegar rannsóknina nú beinast að „ástæðum, undirbúningi og samstarfsmönnum“ Masood. Rannsakað verði hvort Masood hafi verið algjörlega einn að verki og undir áhrifum hryðjuverkaáróðurs, eða hvort aðrir hafi „hvatt hann, stutt eða leiðbeint“.

Hlúð að fórnarlömbum árásarinnar við Westminster. Myndin er tekin úr …
Hlúð að fórnarlömbum árásarinnar við Westminster. Myndin er tekin úr fréttaþyrlu ITN. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert