Margoft reynt að sameina Evrópu

Höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel, höfuðborg Belgíu.
Höfuðstöðvar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel, höfuðborg Belgíu. AFP

Langur vegur er frá því að Evrópusambandið og forverar þess séu fyrsta tilraunin til þess að sameina Evrópu. Þvert á móti hafa ýmsar tilraunir verið gerðar til þess í gegnum aldirnar. Þá ýmist undir forystu eins ríkis, einnar þjóðar eða eins leiðtoga. Fréttaveitan AFP hefur tekið saman helstu tilraunir til þess að sameina álfuna í tilefni af sextíu ára sögu Evrópusambandsins.

Sex áratugir eru á morgun frá því að Rómar-sáttmálinn, sem í dag er hluti af Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins, var undirritaður af leiðtogum Vestur-Þýskalands, Frakklands, Ítalíu, Belgíu, Hollands og Lúxemburg. Þýskaland var þá tvískipt en kommúnistar fóru með völdin í Austur-Þýskalandi. Þýskaland var síðar sameinað árið 1990 við lok kalda stríðsins.

Rómarveldi

Rómverska heimsveldið var við líði frá árinu 27 fyrir Krist til 480 og féll að lokum fyrir innrásarher Gota. Verulega hafði þá farið að halla undir fæti hjá heimsveldinu og voru Rómverjar fyrir margt löngu farnir að reiða sig á málaliða við varnir þess. Þegar það var stærst náði heimsveldið frá norðurhluta Englands til Norður-Afríku og áfram til Miðausturlanda.

Síðari hugmyndir um sameinaða Evrópu hafa gjarnan verið raktar til Rómarveldis. Stofnsáttmáli forvera Evrópusambandsins, Efnahagsbandalags Evrópu, var þannig til að mynda undirritaður í Róm með slíkri skírskotun. Rómarveldi hélt velli lengur en aðrar slíkar tilraunir en féll að lokum vegna innbyrðis deilna, þess hversu víðfemt ríkið var og innrásar óvinaherja.

Karlamagnús

Veldi Karls mikla Frankakonungs eða Karlamagnúsar var við líði frá 768-814 og náði yfir vesturhluta Frakklands og stóran hluta Þýskalands dagsins í dag, landssvæði í Austur-Evrópu og stærstan hluta Ítalíu. Róm gegndi lykilhlutverki í veldi Karlamagnúsar en stjórn ríkissins fór engu að síður einkum fram í borginni Aachen sem í dag er staðsett í vesturhluta Þýskalands.

Karlamagnús krýndur keisari. Málverk eftir Friedrich Kaulbach.
Karlamagnús krýndur keisari. Málverk eftir Friedrich Kaulbach. Wikipedia

Karlamagnús var krýndur sem rómverskur keisari árið 800 af Leó III páfa sem var fyrsta skipti sem það var gert frá falli Rómarveldis. Heilaga rómverska keisaradæmið varð til í kjölfar ríkis Karlamagnúsar sem laustengt bandalag þýskra furstadæma og borgríkja. Karlamagnúsarverðlaunin hafa verið veitt einstaklingum allt frá árinu 1950 fyrir framlag í þágu sameinaðrar Evrópu.

Karl V

Karl V var keisari Heilaga rómverska keisaradæmisins og konungur spænska heimaveldisins. Veldi hans stóð yfir frá 1516-1555 og náði yfir Spán, Ítalíu, Þýskaland, Holland og svæði í Suður-Ameríku sem Spánverjar höfðu þá lagt undir sig. Karl var eini leiðtogi Heilaga rómverska keisaradæmisins sem reyndi að sameina Evrópu á jafnvíðtækan hátt og Evrópusamruni nútímans.

Karl var frönskumælandi Belgi sem átti spænska móður og flæmskan föður sem reyndi að sameina Evrópu á forsendum kaþólskrar trúar, sameiginlegra laga og nýlendustefnu. Hins vegar reyndust Evrópubúar óviljugir til þess að greiða skatta til einvalds í Belgíu sem þeir töldu sig eiga litla samleið með. Eftir að hafa ráðið ríkjum í 34 ár steig Karl til hliðar og gekk í klaustur á Spáni.

Napóleon

Napóleon Bónaparte var keisari Frakklands og var við völd frá 1799-1815. Þegar veldi hans stóð sem hæst náði það frá Spáni til útjaðurs Moskvu í Rússlandi og suður til Ítalíu. Napóleon var fæddur á frönsku eyjunni Korsíku og var af ítölsku bergi brotinn. Hann komst til valda í kjölfar frönsku stjórnarbyltingarinnar en áður hafði hann verið foringi í franska hernum.

Frá krýningu Napóleons sem keisari. Málverk eftir Jacques-Louis David.
Frá krýningu Napóleons sem keisari. Málverk eftir Jacques-Louis David. Wikipedia

Napóleon lét krýna sig keisara 1804 að rómverskri fyrirmynd og sótti innblástur til Rómarveldis. Hann lét meðal annars reisa Sigurbogann í París til þess að minnast sigra sinna í Napóleonstyrjöldunum en fyrirmyndin var Títusarboginn í Róm. Napóleon var sigursæll herforingi en eftir innrás í Rússland fór að halla undir fæti og beið hann loks endanlegs ósigurs við Waterloo í Belgíu 1815.

Adolf Hitler

Adolf Hitler komst til valda í Þýskalandi árið 1933 í gegnum lýðræðislegar kosningar en tók sér síðan alræðisvald í landinu. Mikil hervæðing Þýskalands hófst í kjölfarið. Landvinningar Þýskalands undir forystu Hitlers hófust árið 1938 með innlimun Austurríkis. Þegar mest var náði ríki hans yfir stærstan hluta Evrópu, og þar með talið hluta af Rússlandi, og hluta af Norður-Afríku.

Yfirlýst markmið Hitlers og Nasistaflokks hans var að skapa „lífsrými“ fyrir Þjóðverja og annað fólk sem töldust tilheyra æðri kynþætti að hans mati. Milljónir manna týndu lífi vegna þeirrar hugmyndafræði. Hitler horfði einnig mikið til Rómarveldis. Meðal annars í byggingarlist og ýmissi táknfræði. Sömuleiðis horfðu nasistar til valdatíma Napóleons að ýmsu leyti.

Evrópusambandið

Rómarsáttmálinn og undirritun hans 1957 markar upphaf Evrópusambandsins og forvera þess. Utanríkisráðherra Frakklands, Robert Schuman, hafði árið 1950 lagt fram tillögur að efnahagsbandalagi á milli Frakklands og Vestur-Þýskalands og byggði þar einkum á hugmyndum sem franski hagfræðingurinn Jean Monnet hafði kynnt fyrir síðari heimsstyrjöldina.

Sex ríki voru stofnaðilar að Efnahagsbandalagi Evrópu sem fyrr segir. Síðar átti samstarfið eftir að dýpka mjög og fleiri ríki eftir að gerast aðilar að því. Fjöldi ríkja Evrópusambandsins í dag er 28 en eitt þeirra, Bretland, er hins vegar á útleið. Hvað framtíð Evrópusambandsins kann að fela í skauti sínu og hver áhrif útganga Breta verður á sambandið verður tíminn að leiða í ljós.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert