Ökumaðurinn augljóslega undir áhrifum

Lögreglumenn í Meir í gær.
Lögreglumenn í Meir í gær. AFP

39 ára túnískur karlmaður hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps meðal annars eftir að hann ók bifreið í áttina að mannfjölda í belgísku borginni Antwerpen í gær. Saksóknarar greindu frá því í dag að maðurinn hafi verið ákærður en heimildarmaður sem ekki vildi koma fram undir nafni sagði í samtali við AFP að ekki væri vitað hvort að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða þar sem ekki var hægt að skilja manninn þegar hann var yfirheyrður.

Maðurinn, sem hefur verið nefndur Mohamed R. í fjölmiðlum, var ákærður fyrir tilraun til manndráps, tilraun til þess að valda skaða með bifreið og vopnalagabrot.

Að sögn lögreglu fundust riffill og eggvopn í bílnum eftir að maðurinn var handtekinn.

Atvikið í Antwerpen var aðeins einum degi eftir að árás var gerð í Lundúnum þar sem fimm létu lífið eftir að maður ók bifreið inn í hóp fólks á Westminster-brúnni og stakk síðan lögreglumann. Þá létu 87 lífið þegar að maður ók vörubíl inn í mannfjölda í Nice í Frakklandi í júlí á síðasta ári.

Mohamed R. ók bifreið á miklum hraða í gegnum verslunarsvæðið Meir sem var mjög fjölmennt á þeim tíma og þurfti fólk að stökkva frá bifreiðinni til þess að verða ekki undir henni. Þá hunsaði maðurinn allar skipanir hermanna um að stöðva bifreiðina.

Rannsakendur sögðu að maðurinn hefði verið augljóslega undir áhrifum en ekki var gefið upp undir áhrifum hvers. Þá var jafnframt greint frá því að maðurinn hafi ekki verið í ástandi til þess að fara í yfirheyrslur fyrr en í dag. „Það var ekkert vit í útskýringum hans. Það er ekki staðfest að hægt sé að skilgreina þetta sem hryðjuverkaárás,“ hefur AFP eftir ónefndum heimildarmanni.

Þá var bifreiðin það óhrein að innan að talið er að maðurinn hafi búið í henni.

Hér má sjá bifreiðina sem maðurinn ók í átt að …
Hér má sjá bifreiðina sem maðurinn ók í átt að fólki í Antwerp í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert