Sló starfsmann flugfélags ítrekað með inniskó

Air India hefur fordæmt árás þingmannsins.
Air India hefur fordæmt árás þingmannsins. AFP

Indverskum þingmanni sem sló starfsmann Air India ítrekað með inniskó hefur verið bannað að ferðast með fimm indverskum flugfélögum. Þingmaðurinn Ravindra Gaikwad segist hafa slegið starfsmanninn 25 sinnum með inniskó fyrir „hroka“ eftir að starfsmaðurinn gat ekki útvegað honum sæti á fyrsta farrými í flugferð Air India.

BBC segir frá. 

Flugfélagið sendi frá sér formlega kvörtun vegna málsins í gær og greindi frá því að Gaikwad hefði verið settur í bann hjá Air India en líka hjá IndiGo, Go Air, Spice Jet og Jet Airways, sem eru öll ríkjandi flugfélög í indversku innanlandsflugi.

Í tilkynningu er kallað eftir „hörðum viðbrögðum“ yfirvalda við gjörðum Gaikwad.

„Við lítum svo á að árás á eitt okkar sé árás á okkur öll,“ sagði í tilkynningu.

Félag indverskra flugmanna hefur einnig sent frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að félagið hafi beðið meðlimi sína ekki um að stýra flugferðum þar sem Gaikwad er farþegi.

Þingmanninum hafði verið sagt að hann gæti ekki fengið sæti á fyrsta farrými á ferð sinni frá Pune til Delhí þar sem aðeins eitt farrými var í boði. Atvikið með inniskóinn kom upp þegar vaktstjóri var kallaður til í Delhí eftir að þingmaðurinn neitaði að yfirgefa vélina.

Í samtali við fjölmiðla sagði Gaikwad að hann myndi ekki líða móðganir. „Leyfið starfsmanninum að kvarta. Ég mun kvarta við forseta þingsins og önnur yfirvöld.“ Í dag ítrekaði hann að hann myndi ekki biðja starfsmanninn, sem er sextugur karlmaður, afsökunar.

Fórnarlamb árásarinnar sagði í samtali við fjölmiðla að gleraugun hans hefðu brotnað í árásinni.

„Þegar ég sagði honum að það sem hann bað um væri ekki möguleiki varð hann árásargjarn og byrjaði að bölva,“ sagði hann. „Guð hjálpi landinu okkar ef þetta er hegðun þingmannanna okkar.“

Ashok Ganapathi Raju, flugmálaráðherra Indlands, sagði við fréttamenn á þinginu í gær að enginn borgari ætti að haga sér eins og þingmaðurinn. „Við hvetjum ekki til líkamsárása og munum alltaf fordæma þær.“

Indverskur þingmaður var handtekinn á síðasta ári fyrir að slá starfsmann flugfélags á flugvell í Andhra Pradesh eftir að honum og fjölskyldu hans var meinað að fara inn í flugvél eftir að hliðinu var lokað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert