Biðlar til Rússa, Írana og Tyrkja

Styrjöldin í Sýrlandi hefur nú staðið yfir í 6 ár.
Styrjöldin í Sýrlandi hefur nú staðið yfir í 6 ár. AFP

Sendinefnd Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi hefur sent frá sér ákall til Rússa, Írana og Tyrkja þar sem óskað er eftir aðstoð við að viðhalda vopnahléi í landinu. Þá hafa SÞ varað við því að ofbeldið í landinu síðustu daga ógni friðarviðræðunum í Genf.

Sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi, Staffan de Mistura sendi bréf til stjórnvalda í Rússlandi og Íran sem styðja stjórnarherinn í Sýrlandi en einnig til stjórnvalda í Tyrklandi sem styðja sýrlenska uppreisnarmenn. Þar lýsti hann yfir áhyggjum sínum af ofbeldinu í kringum Damaskus og í Hama héraði síðustu daga.

„Ofbeldið ógnar vopnahléinu,“ sagði de Mistura í yfirlýsingu en það var samþykkt í viðræðum í höfuðborg Kazakhstan, Astana. De Mistura bað löndin þrjú um að gera það sem þau gætu til þess að vopnahléinu verði viðhaldið.

Uppreisnarmenn og liðsmenn hryðjuverkasamtaka í landinu hafa síðustu vikuna gert árásir á bækistöðvar stjórnarhersins í kringum Damaskus og Hama. Stjórnarherinn hefur brugðist við með lofthernaði og öðrum sprengjuárásum.

Samningaaðilar sýrlenskra stjórnvalda hittu De Mistura snemma í morgun í Genf þar sem rætt var um hryðjuverk í landinu. Þau eru eitt af fjórum atriðum sem stendur til að ræða  í þessum friðarviðræðum. Önnur atriði eru stjórnskipulag í landinu, kosningar og ný stjórnarskrá.

Fulltrúar uppreisnarmanna funduðu einnig með teymi de Mistura í dag og snerust umræðurnar að mestu leyti að því hvernig skuli mynda nýja ríkisstjórn í stað ríkisstjórn forsetans Bashar al-Assad en samkvæmt frétt AFP er það helsta forgangsatriði uppreisnarmanna.

Staffan de Mistura, sendifulltrúi SÞ í Sýrlandi.
Staffan de Mistura, sendifulltrúi SÞ í Sýrlandi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert