Skotárás í Las Vegas

Las Vegas.
Las Vegas. AFP

Einn lést og annar særðist í skotárás í bandarísku borginni Las Vegas í dag. Hinn grunaði hefur lokað sig af í rútu í miðbæ borgarinnar eða við Las Vegas Strip sem samanstendur að mestu leyti af hótelum og spilavítum.

Lögregla á svæðinu greindi frá því á Twitter að ákveðið svæði í miðbænum væri lokað af og bað fólk um að forðast svæðið. Myndir teknar úr þyrlum sýna lögreglubíla umkringja tveggja hæða rútu og vitni sögðu frá því á Twitter að lögregla notaði hátalara til þess að ræða við einhvern inni í rútunni.

Að sögn talsmanns lögreglunnar í Las Vegas, Larry Hadfield, varð skotárásin um borð í rútunni. Tveir voru skotnir og annar þeirra er látinn að sögn Hadfield.

Ekki liggur fyrir hvort skotárásin tengist ráni í nágrenninu fyrr í dag þar sem allt að þrír ræningjar, klæddir dýragrímum, notuðu hamra til þess að brjótast inn í skartgripahirslu í verslun inni í lúxushótelinu Bellagio.

Þeir grunuðu klæddust kjólfötum og jakkafötum og voru eins og fyrr segir með dýragrímur. Eitt vitni birti mynd á Twitter af einum ræningjanum með bleika svínsgrímu.

„Þetta var eins og í bíómynd,“ sagði lögreglumaðurinn Carlos Hank í samtali við fjölmiðla um ránið en að minnsta kosti einn er í haldi lögreglu vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert