Slátruðu lambi og afklæddust við Auschwitz

Fólkið afklæddist og hlekkjaði sig saman við hliðið að Auschwitz.
Fólkið afklæddist og hlekkjaði sig saman við hliðið að Auschwitz. AFP

Pólskir saksóknarar hafa ákært ellefu manns sem slátruðu lambi og fækkuðu fötum við hliðið að Auschwitz. Atvikið, sem hefur verið sagt algjörlega fordæmalaust, var framið í gær og á að hafa verið ákall eftir heimsfriði.

Um er að ræða sjö karla og fjórar konur á aldrinum 20 til 27 ára. Eftir að þau slátruðu lambinu settu þau upp hvítan borða með orðinu „Love“ eða „Ást“ skrifað í rauðu yfir hliðið að búðunum, fóru úr fötunum og hlekkjuðu sig saman. Fólkið notaði dróna til að taka upp atvikið.

Sex þeirra ákærðu eru Pólverjar en þá eru fjórir Hvít-Rússar og einn Þjóðverji í hópnum. Þau voru ákærð fyrir að vanhelga minnismerki og maðurinn sem drap lambið verður einnig ákærður fyrir dýraníð.

Fólkið sagði lögreglu að atvikið hafi átt að vera „gjörningur fyrir heimsfrið“. Pólskir fjölmiðlar hafa hins vegar gefið í skyn að gjörningurinn hafi verið mótmæli gegn átökunum í Úkraínu.

Að sögn saksóknara kynntist fólkið á netinu og skipulagði viðburðinn í gegnum samfélagsmiðla. Ekkert bendir til þess að fólkið hafi pólitískar tengingar.

Verðir við Auschwitz-safnið handtóku fólkið og sagði safnið í tilkynningu þá bæði „í áfalli og misboðið“ yfir atvikinu sem var jafnframt sagt „vítavert“ og gera lítið úr minningu fórnarlamba búðanna.

Nasistar byggðu búðirnar í Auschwitz eftir að þeir hernámu Pólland í seinni heimsstyrjöldinni. Safnið í Auschwitz hefur lengi vel verið helsti minnisvarðinn um þjóðarmorð nasista á sex milljónum evrópskra gyðinga en ein milljón gyðinga var myrt í búðunum á árunum 1940 til 1945. Þá létu 100.000 aðrir lífið í búðunum. Um 232.000 þeirra sem létu lífið í Auschwitz voru börn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert