Drápu leiðtoga innan al-Qaeda

Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, greindi frá drápinu í gær.
Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, greindi frá drápinu í gær. AFP

Yfirmaður innan hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda var felldur í drónaárás í Afganistan fyrr í mánuðinum. Maðurinn hét Qari Yasin og hafði verið tengdur við stórar árásir í Pakistan, m.a. sprengjuárás á lúxushótel og árás á krikketlið.

Yasin tilheyrði hópnum tehrik-e-Taliban Pakistan eða Talibanar í Pakistan og var drepinn 19. mars í afganska héraðinu Paktika samkvæmt upplýsingum frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu Pentagon.

„Dauði Qari Yasin sýnir það að hryðjuverkamenn sem niðra íslam og ráðast viljandi á saklaust fólk munu ekki sleppa undan réttvísinni,“ sagði Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, í yfirlýsingu.

Yasin, sem gekk undir ýmsum dulnefnum eins og Ustad Aslam, var sakaður um að hafa skipulagt árás á Marriott-hótel í Islamabad í september 2008 þar sem tugir manna létu lífið, m.a. tveir bandarískir hermenn.

Hann er einnig sagður hafa verið á bak við árás árið 2009 á rútu, sem var að flytja krikketlið frá Sri Lanka, í pakistönsku borginni Lahore. Sex pakistanskir lögreglumenn létu lífið og tveir almennir borgarar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert