Fjöldi mótmælenda handtekinn

Óeirðalögreglan flytur mótmælendur á brott.
Óeirðalögreglan flytur mótmælendur á brott. AFP

Að minnsta kosti 130 manns voru handteknir í mótmælum í Moskvu í Rússlandi, þeirra á meðal er Alexei Navalny, einn af leiðtogum stjórnarandstöðunnar í landinu. Þúsundir hafa tekið þátt í mótmælunum í fjölmörgum borgum Rússlands sem beinast gegn spillingu ríkisstjórnar landsins. 

Lögreglan notaði piparúða til að uppræta mótmælin og handtók fjölda manns í Moskvu.

Þegar Navalny var handtekinn gerðu mótmælendur aðsúg að lögreglunni og kröfðust þess að honum yrði sleppt. „Það er í lagi með mig. Ekki reyna að berjast fyrir mig,“ sagði Navalny í Twitter-færslu eftir að hann var handtekinn. Hann hvatti jafnframt mótmælendur til að halda áfram að berjast gegn spilltri ríkisstjórn landsins því það væri aðalmálið. 

Navalny er einn helsti gagn­rýn­andi Vladimir Pútín Rúss­lands­for­seta. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann kemst í kast við lögin eða er handtekinn vegna mótmæla eða skipulagningar á þeim.

Á næsta ári ætlar Navalny að bjóða sig fram til forseta. Það gæti reynst erfitt því hann var dæmdur í fimm ára skilorðsbundið fangelsi fyrir fjárdrátt í febrúar á þessu ári. Navalny neitar hins vegar sakargiftum og heitir því að bjóða sig fram þrátt fyrir dóminn.

Uppfært kl. 16:15

Að minnst kosti hafa verið yfir 700 manns handteknir vegna mótmælanna í Moskvu.  

Fjöldi manns tók þátt í mótmælunum víða í Rússlandi.
Fjöldi manns tók þátt í mótmælunum víða í Rússlandi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert