Samfélagsrýni gegnum hryllingslinsu

Leikstjórinn Milo Rau hefur hlotið lof gagnrýnenda fyrir nálgun sína.
Leikstjórinn Milo Rau hefur hlotið lof gagnrýnenda fyrir nálgun sína. AFP

Umdeildur leikstjóri hefur ráðið börn til að fara með hlutverk í uppfærslu þar sem umfjöllunarefnið er áfall belgísku þjóðarinnar vegna máls fjöldamorðingjans og barnaníðingsins Marc Dutroux, sem rændi sex stúlkum og nauðgaði.

Milo Rau, sem varð frægur fyrir leikrit sitt The Last Days of the Ceausecus, um einræðisherra Rúmeníu, vann með barnungum leikurunum og sálfræðingum í sex mánuði áður en Five Easy Pieces var fyrst sett á svið.

Dutroux-málið, sem m.a. leiddi til fjöldamótmæla vegna gáleysislegrar meðhöndlunar lögreglu, vomir enn yfir belgísku samfélagi þrátt fyrir að meira en áratugur sé liðinn frá því að maðurinn sem kallaður var „Skrímslið af Charleroi“ var dæmdur í lífstíðarfangelsi árið 2004.

Rafvirkinn játaði að hafa myrt fjórar af stúlkunum sem hann rændi og misnotaði. Tvær létust úr vannæringu árið 1996, í kjallara undir einu húsa Dutroux, á meðan hann sat inni í tengslum við annað mannrán.

Umfjöllun Guardian um Marc Dutroux

Að sögn Rau er Dutroux orðinn nokkurs konar Grýla fyrir belgísk börn og það kom honum á óvart að komast að því þegar prufur stóðu yfir að hinir ungu leikarar þekktu vel til hins hryllilega máls.

„Fyrir þeim er þetta goðsaga, ævintýri, eitthvað mjög fjarlægt,“ sagði leikstjórinn svissneski í samtali við AFP.

Marc Dutroux árið 2004.
Marc Dutroux árið 2004. AFP

Leikverkið hefur hlotið lof meðal gagnrýnenda fyrir nærgætni en svissneska dagblaðið Tribune de Geneve sagði að leikstjórinn hefði sett „skilning ofar æsingaskrifum“.

Leikstjórinn, sem hefur áður sviðsett ræðu norska fjöldamorðingjans Anders Breivik fyrir dómstólum, viðurkennir hins vegar að það að setja á svið leiksýningu fyrir fullorðna með börn í aðalhlutverki mætti á myndrænan hátt túlka sem barnaníð.

Of sjokkerandi?

Spurður að því hvort málið væri of sjokkerandi fyrir börn ítrekaði Rau að verkið fjallaði ekki um hryllinginn sem slíkan. „Það fjallar um stóru málefnin sem leynast að baki honum... hnignun lands, ofsóknarkennd þjóðar, og þá sorg og reiði sem fylgdu í kjölfar glæpanna.“

Verkið er flutt á flæmsku og verður sett upp í Frakklandi, á Bretlandi, á Spáni, í Sviss og í Hollandi. Það var pantað af Campo-listamiðstöðinni í borginni Ghent, sem er þekkt fyrir störf sín með börnum.

„Þegar þau báðu mig að vinna að röð barnaleikrita fyrir fullorðna sagði ég við sjálfan mig: Belgía plús börn - ég ætla að gera eitthvað varðandi Dutroux,“ segir Rau.

„Dutroux-málið þræðir saman öll stóru áföll Belgíu; disfúnksjónal elítuna, endalok námaiðnaðarins og tap nýlendanna. Faðir Dutroux fæddist í Belgísku Kongó og bjó þar þar til hann var sex ára,“ útskýrir leikstjórinn.

Leikritið hefst þegar Kongó lýsir yfir sjálfstæði og endar með útförum fórnarlamba Dutroux, þar sem gerð voru hróp að belgískum stjórnmálamönnum.

Lögmaður Dutroux greindi frá því í fyrra að morðinginn hefði haft í huga að ræna fleiri börnum og halda þeim í „neðanjarðarborg“ í yfirgefinni námu nærri heimili sínu í Charleroi.

Michelle Martin, fyrrverandi eiginkona og samverkamaður Marc Dutroux, er laus …
Michelle Martin, fyrrverandi eiginkona og samverkamaður Marc Dutroux, er laus úr fangelsi. AFP

Reiðin lifir

Rau, sem sló einnig í gegn með leiknu heimildarmyndinni Hate Radio, sem fjallaði um þjóðarmorðið í Rúanda, segir verk sitt segja sögu eins fórnarlambsins af sex.

Sabine Dardenne var 12 ára þegar hún fannst á lífi í kjallara nærri Charleroi, dögum eftir að Dutroux var handtekinn í ágúst 1996. Hún er leikin af hinni 9 ára Rachel Dedain.

Í stað þess að setja atburðarásina á svið velur Rau að nota málið til að varpa ljósi á belgískt samfélag, sem varð yfir sig reitt vegna vanhæfni yfirvalda við rannsókn málsins.

Eitt barnanna leikur föður Dutroux, annað konung Belgíu og fimm börn leika lögregluþjóna sem komu að rannsókninni á hvarfi stúlknanna. Fullorðnir leikarar fara með önnur hlutverk.

Dutroux hafði þegar afplánað fangelsisdóma vegna margra nauðgana áður en hann var grunaður um að bera ábyrgð á hvarfi tveggja vinkvenna sem voru 8 og 9 ára þegar þær hurfu í Liege í júní 1995.

Þrátt fyrir það var hann ekki handtekinn fyrr en 14 mánuðum síðar, þegar fjórar aðrar stúlkur höfðu horfið.

Bæði hann og eiginkona hans Michelle Martin, fyrrverandi barnaskólakennari, höfðu afplánað dóm fyrir barnarán á 9. áratugnum.

Sú staðreynd að það tók yfirvöld áratug að rannsaka málið og klára það fyrir dómstólum magnaði reiði almennings. Fleiri en 300.000 tóku þátt í svokallaðri „hvítu-göngu“ í Brussel til að lýsa bræði sinni vegna stjórnvalda og dómskerfisins.

Margir telja enn að Dutroux hafi verið miðpunktur barnaníðshrings sem náði til stjórnmálamanna, dómara og lögreglumanna. Þá lifa ýmsar samsæriskenningar góðu lífi vegna klúðurslegrar meðferðar málsins.

Titill leikritsins má rekja til tónverks eftir Igor Stravinsky og tengist ekki samnefndri kvikmynd með Jack Nicholson í aðalhlutverki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert