Tveggja árásarmanna leitað

Árásin var gerð í Cincinatti.
Árásin var gerð í Cincinatti. Skjáskot/Google Maps

Að minnsta kosti tveggja árásarmanna er leitað eftir skotárás í næturklúbbi í Cincinnati í Ohio í nótt. Einn er látinn eftir árásina og 14 særðir, sumir lífshættulega. Ekkert virðist benda til þess að árásin sé tengd hryðjuverkum að sögn lögreglu.

Að sögn lögreglustjórans Kimberly Williams eru árásarmennirnir á flótta og hefur lögregla ekki greinargóðar lýsingar á þeim. Virðist sem vitni séu treg til samstarfs að sögn Williams.

„Á  þessum tímapunkti er ekki vitað hverjar voru ástæður árásarinnar,“ sagði Williams í samtali við blaðamenn. „Við teljum að minnsta kosti tvo árásarmenn hafa verið að verki.“

Komið hafa upp vandamál á klúbbnum, sem heitir Cameo, síðustu ár en „þetta er langversta tilfellið“ sagði Williams.

Árásin hófst klukkan 1 að staðartíma eða klukkan 5 að íslenskum tíma. Að sögn Williams hlupu margir strax út þegar fyrstu skotin heyrðust þannig það voru ekki margir eftir inni á staðnum. Talið er að mörg hundruð manns hafi verið á klúbbnum í gærkvöldi.

Minna en ár er síðan Omar Mateen hóf skothríð á næturklúbbi samkynhneigðra í Orlando í Flórída. Þar féllu 49 manns og 53 særðust. Mateen féll í skotbardaga við lögreglu.

Frá vettvangi árásarinnar í nótt.
Frá vettvangi árásarinnar í nótt. Af Twitter-síðu lögreglunnar í Cincinnati
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert