„Börkurinn“ óx aftur

Sahana Khatun ásamt föður sínum.
Sahana Khatun ásamt föður sínum. AFP

10 ára stúlka í Bangladess, sem talin er vera fyrsta konan sem greind er með svokallaðan „trjámannssjúkdóm“, hefur verið útskrifuð af sjúkrahúsi að beiðni föður síns. Faðir stúlkunnar segir aðgerðir hafa gert illt verra og óttast að engin lækning sé við sjúkdómnum.

Fræðiheiti sjúkdómsins er epidermodysplasia verruciformisa.

Skurðlæknar gerðu aðgerð á Sahana Khatun í febrúar og fjarlægðu hluta ofvaxtar sem hefur myndast á húð stúlkunnar og líkist trjáberki.

Þeir fögnuðu útkomu aðgerðarinnar en Mohammad Shahjahan, faðir Sahana, segir ástandið hafa versnað í kjölfarið og hefur ákveðið að hlífa dóttur sinni við frekari inngripum.

„Þeir fjarlægðu barkarvöxtinn en hann óx aftur, þykkari og sterkari,“ sagði Shahjahan í samtali við AFP. „Ég er hræddur. Þeir sögðu að dóttir mín þarfnaðist 8-10 aðgerða til viðbótar. En það er enginn trygging að hún verði læknuð eftir það.“

Samanta Lal Sen, yfirlæknir bruna- og lýtalækningadeildar Dhaka Medical College Hospital, sagðist hefðu viljað að stúlkan væri áfram á sjúkrahúsinu og gengist undir fleiri aðgerðir. Faðir hennar hefði hins vegar neitað.

„Hann fór með dóttur sína, kvartandi yfir því að engin árangur hefði náðst. Við báðum þau um að dvelja nokkrar vikur til viðbótar,“ sagði Sen í samtali við AFP.

Örfáir hafa greinst með epidermodysplasia verruciformisa en þeirra á meðal er Abul Bajandar, 27 ára Bangladessi. Hann hefur gengist undir að minnsta kosti 21 aðgerð til að fjarlægja barkarvöxt af líkama sínum og læknar telja að hann kunni að vera sá fyrsti sem hefur verið læknaður af sjúkdómnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert