Forsetinn fann barnaklám í tölvunni

Milos Zeman forseti Tékklands.
Milos Zeman forseti Tékklands. AFP

Milos Zeman forseti Tékklands segir að bandarískir tölvuhakkarar hafi sett barnaklám inn á eina tölvuna sína fyrir um ári. Þetta kemur fram á opinberri heimasíðu forsetans.

Zeman er fyrrverandi kommúnisti og þekktur fyrir stuðning við rússnesk og kínversk stjórnvöld. Hann tilkynnti fyrr í þessum mánuði að hann sæktist eftir endurkjöri í kosningunum sem fram fara í janúar á næsta ári.

„Fyrir um ári þá setti einhver barnaklám í eina tölvuna mína,“ segir Zeman í viðtali sem birt hefur verið á heimasíðu hans. 

„Ég skoðaði það í um tíu sekúndur áður en ég áttaði mig á hvað væri í gangi,“ segir forsetinn. 

Hann segist í fyrstu hafa ætlað að sér að kæra málið en hafi síðan skipt um skoðun eftir að hafa borið það undir tölvusérfræðinga sína. Tölvuhakkarar hafa áður beint spjótum sínum að öðrum kjörnum fulltrúum í Tékklandi.

Utanríkisráðherra landsins sagði í janúar að tölvuhakkarar hefðu komist inn í tölvupóstinn sinn. Það sama hefði gerst hjá nokkrum öðrum í ráðuneyti hans. 

Hann segir að gagnastuldurinn hafi verið töluverður en að engar trúnaðarupplýsingar hefðu verið teknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert