Rússar láti mótmælendur lausa án tafar

Mótmælendur flögguðu m.a. þessari klippimynd af forsætisráðherranum Dmitry Medvedev sem …
Mótmælendur flögguðu m.a. þessari klippimynd af forsætisráðherranum Dmitry Medvedev sem er sakaður um spillingu. AFP

Evrópusambandið hefur hvatt til þess að rússnesk stjórnvöld leysi án tafar úr haldi hundruð mótmælenda sem voru handteknir er þeir tóku í gær þátt í friðsömum mótmælum gegn spillingu. Bandarísk stjórnvöld hafa einnig fordæmt handtökurnar.

Fréttavefur BBC segir 500 manns hið minnsta hafa verið handtekna í borgum landsins, en göngurnar voru í flestum tilfellum haldnar án leyfis frá rússneskum yfirvöldum.

Frétt mbl.is: Fjöldi mótmælenda handtekinn

Myndbandsupptökur hafa m.a. sýnt mótmælendur hrópa „Niður með Pútín“, „Rússland án Pútíns“ og „Pútín er þjófur!“

Hvöttu mótmælendur Dmitry Medvedev, forsætisráðherra Rússlands, til að segja af sér vegna ásakana um spillingu.  

Alexei Navalny, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, er í hópi þeirra sem voru handteknir í mótmælum sem hann skipulagði í Moskvu.

Navalny sendi frá sér Twitter-skilaðboð eftir að hann var færður í varðhald þar sem hann hvatti mótmælendur til að halda mótmælunum áfram.

Hann sagði lögreglu hafa stormað inn á skrifstofu sína og handtekið starfsfólk sitt sem var að senda út frá mótmælunum í beinni.

Einnig hefur verið greint frá því að þátttakendur í mótmælum í Sankti Pétursborg, Vladivostok, Novosibirsk, Tomsk og nokkrum öðrum borgum hefðu verið handteknir.

Eru mótmælin sögð þau fjölmennustu frá 2012, er fjölmenn mótmæli voru haldin gegn stjórninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert