35 handteknir eftir óeirðir í París

AFP

Lögreglan í París handtók 35 manns seint í gærkvöldi eftir að óeirðir brutust út í kjölfar mótmæla í asíska hluta borgarinnar. Fólkið var að mótmæla drápi lögreglunnar á kínverskum manni á sunnudagskvöldið.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu komu um 150 manns saman fyrir utan lögreglustöð í 19. hverfi. Þrír lögreglumenn slösuðust í átökum við mótmælendur og einn lögreglubíll var skemmdur. 

Fólkið var að mótmæla lögregluofbeldi en maðurinn, Shaoyo Liu, var skotinn til bana af lögreglu eftir að hafa veist að lögreglumanni með hnífi og sært hann. Lögreglan hafði verið kölluð að heimili Shaoyu Liu vegna heimilisofbeldis.

Aftur á móti segir lögmaður fjölskyldu Liu, Calvin Job, að fjölskyldan hafi allt aðra sögu að segja og ekkert sé hæft í því að hann hafi sært lögreglumann með hnífi. Lögreglan hafi sparkað upp hurð íbúðarinnar, ýtt Liu aftur og skotið hann án viðvörunar. Ekki hafi verið tilkynnt um heimilisofbeldi líkt og lögregla haldi fram og hann hafi ekki veist að lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert