Banna útflutning á brjóstamjólk

Skrifstofa Ambrosia Labs í Phnom Penh.
Skrifstofa Ambrosia Labs í Phnom Penh. AFP

Stjórnvöld í Kambódíu hafa bannað útflutning á ferskri brjóstamjólk eftir fréttaflutning um hvernig fátækar konur í landinu neyðast til þess að selja brjóstamjólk sína til þess að geta framfleytt fjölskyldum sínum.

Bandaríska fyrirtækið Ambrosia Labs  er fyrsta bandaríska fyrirtækið sem leitar til útlanda eftir ferskri brjótamjólk sem síðan er dreift í Bandaríkjunum.

Fátækar konur í höfuðborg Kambódíu, Phnom Penh, fengu greitt fyrir að mæta á skrifstofu fyrirtækisins þar sem þær létu dæla úr sér brjóstamjólkinni sem síðan var flutt út til Bandaríkjanna. Þar var hún gerilsneydd og seld á 20 Bandaríkjadali pakkningin (147 ml).

Viðskiptavinir fyrirtækisins eru bandarískar mæður sem vildu gefa börnum sínum brjóstamjólk en gátu ekki eða vildu ekki vera sjálfar með börn á brjósti.

Ríkisstjórn Kambódíu samþykkti á fundi sínum í dag að banna slíkan útflutning því þrátt fyrir að Kambódía sé fátækt land og lífsbaráttan erfið þá er staðan ekki svo slæm að konur eigi að neyðast til þess að selja brjóstamjólk sína úr landi, segir í tilkynningu frá stjórnvöldum.

UNICEF hefur harðlega gagnrýnt mjólkurútflutninginn og segja að brjóstamjólkin eig frekar að nýtast börnum í heimalandinu þar sem fátækt er mikil og mörg börn glíma við vannæringu. 

Forsvarsmenn Ambrosia Labs segja aftur á móti að með þessu séu kambódískar konur hvattar til þess að vera lengur með börn sín á brjósti og fái greitt fyrir. Á sama tíma sé mikil eftirspurn eftir brjóstamjólk í Bandaríkjunum og því sé þetta allra hagur.

Chea Sam, þrítug móðir sem eitt sinn starfaði fyrir Ambrosia Labs, sagði í viðtali við AFP nýverið að hún hafi selt brjóstamjólk sína í þrjá mánuði eftir að sonur hennar fæddist. Hún hafi fengið 7-10 Bandaríkjadali á dag fyrir mjólkina og hún vissi af fleiri konum sem gerðu slíkt hið sama. Peningarnir hafi komið sér vel enda fjölskyldan bláfátæk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert