Ekki fleiri kökumyndir

Inger Støjberg, ráðherra innflytjendamála í Danmörku.
Inger Støjberg, ráðherra innflytjendamála í Danmörku. AFP

Ráðherra innflytjendamála í Danmörku, Inger Støjberg, segist undrast þau viðbrögð sem hún hefur fengið vegna myndar á Facebook þar sem hún fagnar hertum reglum um komu flóttafólks til landsins með köku. Hún segir að hún muni ekki kaupa aftur köku af þessu tagi.

Færsla Støjberg á Facebook 14. mars vakti mikla athygli en með mynd af henni með kökuna segist hún fagna því að regla númer 50 sem hamlar enn frekar komu flóttafólks og hælisleitenda til Danmerkur hafi tekið gildi.

Færslan fór víða á samfélagsmiðlum og fjölluðu fjölmargir alþjóðlegir fjölmiðlar um málið.

Fjölmargir gagnrýnendur Støjberg birtu einnig myndir af sér með köku. Þar á meðal Rauði krossinn í Danmörku. Í færslu hans segir að Rauði krossinn hafi veitt tæplega 2,5 milljónum Sýrlendinga aðstoð frá því stríðið braust úr fyrir sex árum og því beri að fagna með kaupum á köku fyrir 50 krónur.

Í viðtali við danska ríkisútvarpið segir Støjberg að það hafi komið henni verulega á óvart hversu harða gagnrýni kökumyndin hafi fengið og hún hafi alls ekki ætlað sér að móðga neinn.

Hún hafi aðeins viljað benda á að flokkur hennar hafi staðið við kosningaloforð sín um að auka hömlur á komu innflytjenda til Danmerkur.

Frétt DR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert