„Fáið ykkur líf!“

Forsíðumyndin vakti athygli.
Forsíðumyndin vakti athygli. AFP

Gagnrýnendum forsíðu Daily Mail í dag, þar sem leggir Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, og Nicola Sturgeon, fyrsta ráðherra Skotlands, eru bornir saman, hefur verið sagt að „fá sér líf“.

Slúðurblaðið var sakað um karlrembu vegna forsíðunnar og hafa stjórnmálamenn og aðrir keppst við að tjá sig um hana. Þingkonan Nicky Morgan sakaði blaðið um „skelfilega karlrembu“ og Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, sagði að viðhorf sem þessi ættu aðeins heima í fortíðinni.

Talsmaður Daily Mail sagði viðbrögðin við forsíðunni hafa verið ýkt. „Í guðanna bænum fáið ykkur líf. Pistill Sarah Vine sem var merktur sem léttmeti var við hliðina á alvarlegri grein um málið,“ sagði talsmaðurinn en í pistli Vine sagði m.a. að Sturgeon hafi verið „daðurs­leg og heill­andi“ með krosslagða fæt­ur. „Bein til­raun til tæl­ing­ar,“ skrifaði Vine.

Benti talsmaðurinn á að blaðið í morgun hafi verið 84 síður, fullt af „mikilvægum fréttum og greiningum“ og að forsíðufréttin hafi verið niðurskurður í heilbrigðiskerfinu.

Bætti hann jafnframt við að Daily Mail hafi verið sá fjölmiðill sem studdi May helst í starfi. „Og við skrifum oft um útlit karlstjórnmálamanna, eins og mitti David Cameron, hár Osborne, föt Corbyn og meira að segja leggi Boris Johnson.“ Spurði hann jafnframt hvort það væri regla að umfjöllun um stjórnmál þyrfti að vera „leiðinleg“ eða í anda vinstri sinnaðra fjölmiðla sem hafa misst „allan húmor“.

May gerði grín að málinu í dag þegar hún var …
May gerði grín að málinu í dag þegar hún var spurð út í það af blaðamanni. „Þú sérð að ég er í buxum í dag!“ sagði hún hlæjandi. AFP

May gerði grín að málinu í dag þegar hún var spurð út í það af blaðamanni. „Þú sérð að ég er í buxum í dag!“ sagði hún hlæjandi. „Sem kona í stjórnmálum hef ég í gegnum allan minn feril komist að því að það sem ég klæðist, sérstaklega skórnir mínir, verði umfjöllunarefni fólks. Augljóslega er það það sem við gerum sem stjórnmálamenn sem hefur áhrif á líf fólks. En ef fólk vill skemmta sér yfir því hvernig við klæðum okkur skal það vera þannig.“

Umfjöllun The Independent. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert