Forsíða Daily Mail harðlega gagnrýnd

Svona leit forsíða Daily Mail út í morgun.
Svona leit forsíða Daily Mail út í morgun. Skjáskot af Twitter

„Alveg sama um Brexit, hver vann Legs-it!“ eða „Never mind Brexit, who won Legs-it!“ stóð í hástöfum á forsíðu breska dagblaðsins Daily Mail í dag við hliðina á mynd af fyrsta ráðherra Skotlands, Nicola Sturgeon og forsætisráðherra Bretlands Theresu May.

Forsíðan hefur vakið mikla athygli og reiði frá stjórnmálamönnum og almenningi. „Það er útaf svona hlutum sem við þurfum femínisma“ skrifaði einn Twitter-notandi.

Ekki skánaði það inni í blaðinu en þar var fyrirsögnin „Finest weapons at their command? Those pins!“ eða „Vopnaðar sínum bestu vopnum? Þessir hælar!“ og þar var einnig pistill eftir blaðamanninn Sarah Vine sem skrifaði sérstaklega um leggi Sturgeon og sagði hana hafa verið „daðurslega og heillandi“ með krosslagða fætur. „Bein tilraun til tælingar“.

Meðal þeirra sem voru fyrstir til að gagnrýna fréttaflutninginn voru þingkonurnar Harriet Harman og Yvette Cooper. Fyrrum ráðgjafi Tony Blair, Alastair Campell sagði blaðið „fullkominn sora“ og hvatti alla þá sem sæju svona blað að rífa það í tætlur.

„Sjötti áratugurinn hringdi og bað um fyrirsögnina sína aftur“ tísti Ed Miliband, fyrrverandi leiðtogi Verkamannaflokksins.

Núverandi leiðtogi flokksins, Jeremy Corbyn tók í sama streng og sagði að viðhorf blaðsins ætti að vera úr sögunni.

Tilefni forsíðunnar í morgun voru erfiðar viðræður May og Sturgeon um Brexit. Skoska útgáfa Daily Mail var við sama heygarðshorn og félagi sinn í Bretlandi og var með fyrirsögnina „Oh so frosty! Secrets of Nicola and PM‘S talk-in“ eða „Ó svo kaldar! Leyndarmálin í viðræðum Nicola og forsætisráðherrans.“

Umfjöllun Guardian. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert