Hélt vin sinn geimveru og myrti hann

Wikipedia

Rúmlega þrítugur svissneskur karlmaður kom fyrir dóm í Bretlandi í gær vegna ákæru um að hafa myrt 23 ára breskan vin sinn á heimili þess fyrrnefnda í Sviss í desember 2014. Mennirnir höfðu verið í teiti þar sem eiturlyfja var neytt. Svisslendingurinn, Bennet von Vertes, sagði fyrir dómi að hann hefði talið Bretann, Alex Morgan, græna geimveru sem þyrfti að drepa.

Fram kemur á fréttavef Daily Telegraph að Von Vertes, sem var í eiturlyfjavímu, hafi ráðist á Morgan með kertastjaka og síðan kyrkt hann. Lík Morgans hafi fundist á heimili Von Vertes og verið illa farið. Von Vertes hafði sjálfur samband við lögregluna og tilkynnti henni að illa slasaður maður væri á heimili hans. Von Vertes hefur verið í haldi lögreglunnar síðan.

Von Vertes, sem hafði bæði neytt áfengis og eiturlyfja auk þess að taka svefnpillur, var haldinn ofskynjunum þegar hann myrti Morgan. Taldi hann sig búa yfir ofurmætti, að Morgan hefði breyst í græna geimveru og þeir væru þeir síðustu á lífi á jörðinni. Lögfræðingar Von Vertes hafa borið við geðveiki. Hann hefur einnig verið ákærður í öðru máli fyrir að nauðga konu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert