Hundruð óbreyttra borgara fallið í Mosúl

Írakar flýja í þúsunda vís frá borginni Mosúl. Þeir fara …
Írakar flýja í þúsunda vís frá borginni Mosúl. Þeir fara flestir í flóttamannabúðir í nágrenni borgarinnar. Alls óvíst er hvenær þeir geta snúið aftur til síns heima. AFP

Meira en 300 óbreyttir borgarar hafa fallið frá því að orrustan um vesturhluta borgarinnar Mosúl hófst í síðasta mánuði. Sameinuðu þjóðirnar óttast að fórnarlömbin séu nær 400 en það hefur ekki fengist staðfest. Stofnunin hefur fengið staðfest að 307 borgarar hafi fallið frá 17. febrúar til 22. mars. Til viðbótar hafi hún fengið upplýsingar um að 95 hafi dáið í árásum á fjögur hverfi Mosúl dagana 23.-26. mars.

Stjórnarher Íraks, sem nýtur stuðnings bandalagsríkja, hóf loftárásir á borgina í febrúar. Skotmörkin tengjast Ríki íslams hrifsaði til sín völdin í borginni fyrir nokkrum misserum. 

Hins vegar þykir ljóst að þessi lofthernaður hafi fellt tugi óbreyttra borgara, jafnvel hundruð. Slíkt verður nú rannsakað.

Yfirmaður mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna fagnar því að rannsaka eigi drápin. Hann segir að brýn nauðsyn sé til að endurskoða þær aðferðir sem viðhafðar eru í hernaði stjórnarhersins og bandalagsríkjanna til að koma í veg fyrir frekara mannfall meðal óbreyttra borgara. 

Vígamenn Ríkis íslams hafa notað íbúa borgarinnar sem mannlega skildi í vesturhluta Mosúl sem orrustan snýst nú um. Fyrr á þessu ári náði stjórnarherinn aftur völdum í austurhlutanum. 

Yfir 200 þúsund manns hafa flúið vesturhluta borgarinnar síðustu vikur. Um 600 þúsund eru enn á því svæði þar sem Ríki íslams fer með völd. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert