Sagði „ég segi af mér" þrisvar

Skákmaður tekur mynd af sér með Kirsan Iljúmsjínov, forseta FIDE, …
Skákmaður tekur mynd af sér með Kirsan Iljúmsjínov, forseta FIDE, á Reykjavíkurskákmótinu árið 2015, mbl.is/Árni Sæberg

Framkvæmdastjóri Alþjóðaskáksambandsins, FIDE, segir að Kirsan Iljúmsjínov, forseti sambandsins, hafi á stjórnarfundi á mánudag lýst því þrívegis yfir að hann segði af sér embætti. Iljúmsjínov segist ekki hafa sagt af sér og ætli ekki að gera það.

Uppnám varð í skákheiminum í gær þegar frétt birtist á vef FIDE um að Iljúmsjínov hefði sagt af sér embætti forseta sambandsins.  Nigel Freeman, framkvæmdastjóri FIDE, staðfesti þetta við vefinn Chess.com en Berik Balgabajev, aðstoðarmaður Iljúmsjínovs, sagði hins vegar að þetta væru falskar fréttir. Og rússneska fréttastofan TASS hafði eftir Iljúmsjínov að stjórn FIDE hefði viljað bola honum út en það hefði ekki tekist. „Ég hef ekki skrifað undir neitt og ég ætla ekki að segja af mér. Ég held að Bandaríkjamenn séu með puttana í þessu, ætli það megi ekki kalla þetta fyrirsát.“ Þegar Balgabajev var spurður hvers vegna umrædd tilkynning hefði birst á vef FIDE svaraði hann: „FIDE er stór samtök.“

Síðdegis í gær sendi Iljúmsjínov síðan frá sér formlegt bréf, stílað á Freeman, þar sem hann segir að fréttir á vef FIDE um meinta afsögn sína séu ósannar. Hann hafi ekki lagt fram formlega tilkynningu um afsögn og ætli sér það ekki.

Bréfið var birt á vef FIDE í morgun. Með fylgdi annað formlegt bréf frá Freeman til Iljúmsjínovs þar sem segir:

„Á stjórnarfundi í Aþenu hótaðir þú nokkrum sinnum að segja af þér og í lok fundarins endurtókst þú þrisvar sinnum: ég segi af mér, áður en þú yfirgafst herbergið. 

Aukastjórnarfundur hefur verið boðaður 10. apríl að kröfu stjórnarmanna til að ræða þetta mál."

Umdeildur

Iljúmsjínov var fyrst kjörinn forseti FIDE árið 1995, en hann var þá forseti rússneska lýðveldisins Kalmykíu. Hann hefur verið umdeildur í embætti, m.a. vegna yfirlýsingar árið 1997 um að hann hefði átt fund með geimverum. Ekki bætti úr skák þegar bandaríska fjármálaráðuneytið setti hann á lista yfir þá sem beita ætti efnahagslegum refsiaðgerðum fyrir að aðstoða ríkisstjórn Sýrlands við að kaupa olíu af hryðjuverkasamtökunum Íslamska ríkinu. Í kjölfarið vék Iljúmsjínov tímabundið úr embætti forseta FIDE en staða hans hefur verið óljós síðan og hann hefur komið fram sem forseti FIDE við opinber tækifæri þótt hann taki ekki með beinum hætti þátt í rekstri samtakanna.

Iljúmsjínov kom til Íslands árið 2015 og var viðstaddur setningu Reykjavíkurskákmótsins. Hann tefldi einnig eina hraðskák við Friðrik Ólafsson, fyrrverandi forseta FIDE.

Vefur FIDE

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert