Sjakalinn dæmdur í lífstíðarfangelsi

Ilich Ramirez Sanchez, snemma á áttunda áratugnum, Carlos í mars …
Ilich Ramirez Sanchez, snemma á áttunda áratugnum, Carlos í mars 2001 og Carlos í desember 2013. AFP

Carlos, sem einnig er þekktur undir heitinu Sjakalinn, var í París í dag dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að bera ábyrgð á sprengjutilræði í verslun í borginni fyrir meira en 40 árum síðan. Hann afplánar þegar lífstíðardóm í Frakklandi.

Sjakalinn var í þetta skipti ákærður fyrir sprengju­til­ræði í lyfja­versl­un­inni Pu­blic­is í Saint-Germain-des-Pres hverf­inu í Par­ís. Hand­sprengju var hent inn í versl­un­ina síðdeg­is 15. sept­em­ber 1974. Tveir lét­ust og 34 særðust. 

Carlos, sem heitir réttu nafni Ilich Ramírez Sánchez er 67 ára gamall og frá Venesúela. Hann hefur setið á bak við lás og slá í París síðan 1997. Þá var hann dæmdur í lífstíðarfangelsi og í desember 2011 var öðrum lífstíðardómi bætt við þann fyrri. Því er ljóst að hann strýkur ekki um frjálst höfuð framar enda með þrjá lífstíðardóma nú á bakinu.

Ramírez kom fyrst fram á sjónarsviðið laust fyrir jólin 1975 þegar hann fór fyrir flokki hryðjuverkamanna sem tóku olíumálaráðherra OPEC, hagsmunasamtaka olíuframleiðsluríkja, í gíslingu þar sem þeir voru á fundi í Vínarborg. Þrír lágu í valnum eftir þá árás.

Næstu ár á eftir skildi Sjakalinn eftir sig blóðuga slóð víða vegna sprengjuárása, og því hefur verið haldið fram að hann beri ábyrgð á dauða allt að 2.000 manna. Í viðtali fyrir nokkrum árum sagði hann að „aðeins“ um 200 manns, innan við 10%, hefðu verið saklausir vegfarendur.

Við dómsuppsöguna í París í dag sagði Carlos réttarhöldin vera fáránleg en 42 ár eru liðin frá árásinni. Við réttarhöldin neitaði hann að hafa kastað handsprengjunni inn í lyfjaverslunina og að engar sannanir væru fyrir því að hann hafi átt aðild að árásinni. Fimm dómarar voru hins vegar sammála um að Carlos hafi kastað handsprengjunni sem kostaði tvo lífið og særði 32.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert