Úr ný-nasisma í umburðarlyndi

Kimmie Ahlen lét fjarlægja nokkur húðflúra sinna, sem hann segir …
Kimmie Ahlen lét fjarlægja nokkur húðflúra sinna, sem hann segir ekki hafa verið viðeigandi við sundlaugina, en vill ekki tjá sig um þau að öðru leyti. AFP

Kimmie Ahlen lét eitt sinn lokkast af ofbeldisfullum undirstoðum nasismans en í dag hefur hann áhyggjur af útbreiðslu popúlisma og vinnur að því að kenna sænskum ungmennum umburðarlyndi.

Hann er ljóshærður, bláeygur og hraustlega vaxinn, m.a. vegna mikillar viðveru í ræktinni og hnefaleikahringnum. Drengurinn sem mátti þola stríðni af hálfu bekkjarfélaga sinna er horfinn, umbreyttur af vöðvum og húðflúrum á hálsi og fingrum.

Á aldri þegar flest ungmenni verja tíma sínum í að stíga í vænginn við hitt kynið og þræla við ritgerðaskrif, gekk Ahlen til liðs við ný-nasista sem voru með norrænar goðsagnir á heilanum og afneituðu helförinni. Þeir trúðu því að hvítir menn væru æðri öðrum en margir þeirra voru glæpamenn og eiturlyfjaneytendur.

En það var þá.

Nú er Ahlen 27 ára og ver tíma sínum við að vara táninga við aðdráttarafli hatursins, í landi þar sem 10 milljóna þjóð hefur tekið á móti næstum 300.000 flóttamönnum frá 2014.

„Veröldin er önnur í dag. Donald Trump er forseti Bandaríkjanna og Svíþjóðardemókratar gætu brátt náð völdum í landinu okkar,“ segir Ahlen í samtali við AFP.

Ungmennaráðgjafinn býr einn í rauðum og hvítum kofa við Vänern-vatn, stærsta vatn Svíþjóðar. Kofinn er í um þriggja klukkustunda fjarlægð frá Stokkhólmi og er tilvalinn staður til að hugleiða og íhuga.

Þegar hann var ungur var Ahlen feiminn og lagður í einelti af jafnöldrum sínum og sumum kennara sinna. Þegar hann var ekki í skólanum dundaði hann sér við það að safna hlutum sem hann fann úti á götu.

Einn dag, þegar hann var 12 ára, uppgötvaði hann geisladisk með hljómsveitinni Ultima Thule. Þungarokkssveitin bar boðskap yfirburða hvíta mannsins og naut vinsælda meðal ný-nasista. Ahlen varð fyrir opinberun.

Ahlen aðhylltist ný-nasisma án þess að gera sér grein fyrir …
Ahlen aðhylltist ný-nasisma án þess að gera sér grein fyrir þýðingu nasismans. AFP

„Ég elskaði tónlistina,“ segir hann. „Það sem höfðaði sérstaklega til mín var það hvernig þeir töluðu um Svíþjóð. Það gerði mig að þjóðernissinna, nasista, án þess að skilja þýðingu nasismans.“

Skömmu síðar gekk hann til liðs við hóp snoðhausa í Valberg. Á þeim tíma bjó ekki einn einasti útlendingur í hinum 3.000 íbúa bæ en atvinnuleysi og vonleysi blöstu alls staðar við.

Leið eins og hann væri einhver

Umbreyting Ahlen hófst með klæðaburðinum: 14 ára fór hann að klæðast einkennisbúningi ný-nasista; bomber-jakka og Doc Martens-skóm. „Það gaf mér auðkenni, tilfinninguna að vera einhver,“ segir hann.

Á árunum 2006-2008 sótti Ahlen fjöldafundi ný-nasista víðs vegar í Svíþjóð. Þegar hann var ekki að berja vinstrisinnaða aðgerðasinna hélt hann ræður: „Ég man eftir því að hafa skáldað upp sögu um innflytjendur sem grilluðu ketti og átu þá,“ segir hann.

Hann datt úr skóla, fór að gera tilraunir með eiturlyf og var ítrekað handtekinn vegna glæpa á borð við þjófnað og skemmdarverk. Á endanum voru það eiturlyfin sem urðu til þess að hann rataði aftur á rétta braut.

„Það var skemmtilegra að neyta eiturlyfja,“ segir Ahlen. Hann fjarlægðist snoðhausana en stóð enn fastur á sannfæringum sínum. Þar til einn dag, þegar hnefaleikaþjálfarinn hans neyddi hann til að slást við mann frá Íran.

„Það var annaðhvort það eða að læra ekki að boxa,“ segir Ahlen. „Það var á þessum tíma sem ég hætti að hata fólk vegna útlitsins.“

Flóttamenn bíða örlaga sinna í Frakklandi. Þegar Ahlen gekk til …
Flóttamenn bíða örlaga sinna í Frakklandi. Þegar Ahlen gekk til liðs við snoðhausa í Valberg bjó enginn útlendingur í bænum en atvinnu- og vonleysi kynti undir hatur. AFP

Á meðan hann sat í fangelsi vegna þjófnaðar kynntist hann sænskum kennara sem hjálpaði honum að hverfa frá rasismanum; í fyrsta sinn upplifði Ahlen að einhver hlustaði á sig og hóf að tjá sig.

En það var ekki fyrr en seinna, þegar hann sat í fangelsi í síðasta sinn og móðir hans var alvarlega veik, sem hann ákvað að breyta lífi sínu. Hann fékk sér vinnu og hætti að hanga með vinum sínum til að verja meiri tíma með vinnufélögunum. Og hóf að skrifa ljóð.

Tölum við unga fólkið

Það var fyrrnefndur hnefaleikaþjálfari sem hvatti Ahlen til að tala við unga fólkið.

„Ég rakti allt líf mitt á 22 A4 síðum. Ég las síðurnar frá upphafi til enda án þess að horfa á neinn í salnum. Versti ræðumaður í heimi,“ rifjar hann upp.

Hann hefur í kjölfarið látið fjarlægja nokkur húðflúra sinna; „þau voru ekki beint viðeigandi við sundlaugina,“ segir hann og neitar að tjá sig um málið að öðru leyti.

Ahlen segist leggja áherslu á að allir táningar sem hann hittir séu teknir alvarlega. Fyrir honum er útilokun það sem þokar ungmennum í átt að skaðvænlegri hegðun.

„Þú verður að sýna þeim umburðarlyndi og tala við þau, í stað þess að loka dyrunum og leyfa heilum hópi að vaxa og verða hatursfyllri og ofbeldisfyllri og hættulegur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert