Reyndi að stinga lögreglumenn í Jerúsalem

Ísraelskir lögreglumenn bera lík konunnar frá Damaskus-hliðinu í morgun.
Ísraelskir lögreglumenn bera lík konunnar frá Damaskus-hliðinu í morgun. AFP

Palestínsk kona var skotin til bana af ísraelskri landamæralögreglu í morgun þegar hún reyni að stinga lögreglumann með hníf við hliðið inn í gömlu Jerúsalem.

Konan dró fram hníf og ógnaði lögreglumönnum við Damaskus-hliðið en var skotin til bana áður en hún náði að beita vopni sínu að sögn talskonu lögreglu í tilkynningu.

Vitni birtu myndir af vettvangi á samfélagsmiðlum sem sýndu konuna liggjandi á maganum eftir árásina. Hún virtist vera á miðjum aldri samkvæmt frétt AFP. Svæðið hefur nú verið girt af ásamt fleiri inngöngum inn í gömlu borgina en Damaskus-hliðið er vinsæll ferðamannastaður.

258 Palestínumenn hafa látið lífið í öldu ofbeldis á svæðinu sem hófst í október 2015. Þá hafa 40 Ísraelsmenn látið lífið, tveir Bandaríkjamenn, einn Jórdani, einn Eriítreumaður og einn Súdani.

Flestir Palestínumennirnir voru drepnir við það að fremja hnífa- skot- eða bílaárásir samkvæmt ísraelskum yfirvöldu. Hinir létu lífið í mótmælum, öðrum átökum eða loftárásum Ísraela á Gaza-ströndina. Ofbeldið hefur minnkað síðustu mánuði samkvæmt frétt AFP.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert