Sænskur hjálparstarfsmaður drepinn í A-Kongó

Zaida Catalán.
Zaida Catalán. Instagram

Sænskur hjálparstarfsmaður, sem var rænt í Austur-Kongó fyrr í mánuðinum, fannst látinn að því er fram kemur í yfirlýsingu sænska utanríkisráðuneytisins og Sameinuðu þjóðanna í gær.

Auk Zaida Catalán, 36 ára, fundust lík starfsfélaga hennar frá Bandaríkjunum og túlkur þeirra í grunnri gröf skammt frá þeim stað sem þeim var rænt á. Þau höfðu verið afhöfðuð. Sameinuðu þjóðirnar ætla að rannsaka dauða þeirra en þeim var rænt fyrir tveimur vikum í Kasaï-Central-héraði. Þar voru þau að rannsaka möguleg fjöldamorð en átök geisa í héraðinu. 

Forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven, segist fullur sorgar og sér sé mjög brugðið við fréttirnar af dauða Catalán. Hann segir að hún hafi unnið sleitulaust að því að koma á friði og réttlæti í Austur-Kongó og aðgerðir hennar og teymis hennar hafi vakið von í landi sem hefur lengi búið við skálmöld. Hún hafi ekki hikað við að leggja líf sitt að veði til að aðstoða aðra.

„Við deilum sorg ástvina hennar á sama tíma og við erum full þakklætis fyrir framlag hennar,“ segir Löfven. Margot Wallström utanríkisráðherra segist vera miður sín yfir dauða Zaida Catalán og þau syrgi með ástvinum hennar. Sækja verði þá sem beri ábyrgð á dauða hennar til saka. 

Gustav Fridolin, talsmaður Græningja, og Isabella Lövin, þingmaður og ráðherra Græningja, minnast hennar einnig með hlýhug en Catalán var áður formaður ungliðahreyfingar Græningja og var meðal annars borgarfulltrúi flokksins og talsmaður hans í mörgum málum, svo sem dýravelferð.

Lík Catalán og starfsbróður hennar, Michael Sharp, hafa verið flutt í líkhús á flugvellinum í Kananga en sænska utanríkisráðuneytið veit ekki hvenær líkamsleifar hennar verða fluttar heim. 

Frétt Dagens Nyheter

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert