Flynn talar gegn friðhelgi

Michael Flynn.
Michael Flynn. AFP

Fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta, Michael Flynn, hefur boðist til þess að bera vitni í rannsókn á meintum tengslum milli Rússa og starfsmanna forsetaframboðs Trump gegn því hann fái friðhelgi fyrir saksókn. Þetta kemur fram í frétt Wall Street Journal í gær.

Samkvæmt frétt blaðsins lagði Flynn fram tilboð sitt við bandarísku alríkislögregluna (FBI) og leyniþjónustunefnd þingsins.

Flynn starfaði sem náinn ráðgjafi Trump í kosningabaráttunni í fyrra en neyddist til þess að víkja úr starfi þjóðaröryggisráðgjafa í síðasta mánuði eftir að það kom í ljós að hann hafði ekki greint rétt og satt frá um samtöl sín og sendiherra Rússa í Bandaríkjunum, Sergei Kislyak. Ræddu þeir um refsiaðgerðir bandarískra yfirvalda í garð Rússa. Bandarískar stofnanir saka Rússa um að hafa borið ábyrgð á tölvuárásum á starfsmenn framboðs Hillary Clinton, frambjóðanda demókrata í forsetakosningunum.

Flynn ásamt Donald Trump og Steve Bannon í forsetaskrifstofunni í …
Flynn ásamt Donald Trump og Steve Bannon í forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu. AFP

Flynn stoppaði ekki lengi í starfi þjóðaröryggisráðgjafa því hann neyddist til þess að segja af sér í febrúar eftir að í ljós kom að hann hefði gefið yfirmönnum sínum misvísandi upplýsingar um samskipti sín við Rússa áður en Trump tók við embætti.

Flynn var gefið að sök að hafa rætt við Sergei Kislyak, sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum, um refsiaðgerðir Bandaríkjanna gegn Rússum vegna Úkraínudeilunnar áður en hann tók við embætti. Landslög í Bandaríkjunum meina óbreyttum borgurum að hafa afskipti af utanríkisstefnu landsins.

Flynn viðurkenndi að hann hefði „af misgáningi“ látið Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, fá „ófullkomnar upplýsingar“ um eðli samtala sinna við sendiherrann. Pence varði Flynn í kjölfarið á opinberum vettvangi og þykir málið neyðarlegt fyrir varaforsetann.

WSJ segir að blaðið hafi ekki nákvæmar upplýsingar um hvað Flynn hafi boðist til þess að tala um. En blaðið hefur eftir einum ónafngreindum heimildarmanni að beiðni Flynn bendi til þess að mikið sé undir.

Robert Kelner, lögmaður Flynn, segir í yfirlýsingu sem hann birti á Twitter seint í gærkvöldi að Flynn hafi svo sannarlega sögu að segja og hann vilji svo sannarlega segja hana ef réttu aðstæðurnar myndast.

Michael T. Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta.
Michael T. Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta. AFP

Michael Flynn er 57 ára og starfaði í hernum í 33 ár. Hann naut mikillar virðingar þar en hefur verið umdeildur meðal fyrrverandi samstarfsmanna og yfirmanna sinna síðustu misserin, að því er fram kom í frétt sem Bogi Þór Arason skrifaði í Morgunblaðið 19. nóvember þegar tilkynnt hafði verið um að Trump hefði valið Flynn í embætti þjóðaröryggisráðgjafa.

Flynn starfaði m.a. sem leyniþjónustustjóri bandaríska herráðsins og var ráðgjafi yfirmanns hersveita Bandaríkjanna í Írak og Afganistan í leyniþjónustumálum. Hann hefur því mikla reynslu af baráttunni gegn íslömskum öfgasamtökum í þessum löndum.

Flynn olli titringi meðal samstarfsmanna sinna í hernum árið 2010 þegar hann gagnrýndi starfsaðferðir leyniþjónustu hersins í skýrslu sem hugveita í Washington birti. Embættismenn í varnarmálaráðuneytinu settu út á þá ákvörðun hans að nota hugveitu til að koma gagnrýni sinni á framfæri.

 Segir ótta við múslima rökréttan

Tveimur árum síðar var Flynn þó skipaður yfirmaður leyniþjónustunnar DIA, sem heyrir undir varnarmálaráðuneytið í Washington. Hann reyndi að gera umbætur á starfsháttum leyniþjónustunnar en átti í útistöðum við yfirmenn sína og þá sem stjórnuðu öðrum leyniþjónustustofnunum. Deilurnar urðu til þess að James Clapper, helsti ráðgjafi forsetans í leyniþjónustumálum, og Michael Vickers, þá aðstoðarvarnarmálaráðherra, viku honum frá sem yfirmanni DIA og þvinguðu hann til að fara á eftirlaun.

Flynn hélt því fram að sér hefði verið vikið frá vegna baráttu sinnar gegn „róttækum íslamisma og útþenslu al-Qaeda og tengdra hreyfinga“. Hann sagði að stjórn Baracks Obama forseta hefði orðið værukær eftir að hryðjuverkaforinginn Osama bin Laden var drepinn árið 2011 og vanmetið hættuna sem stafaði af hryðjuverkanetinu al-Qaeda og afsprengjum þess.

Aðrir sögðu að Flynn hefði verið vikið frá vegna óánægju samstarfsmanna með stjórnunarstíl hans. Á meðal þeirra sem héldu þessu fram var Colin Powell, sem var utanríkisráðherra í forsetatíð George W. Bush og áður forseti bandaríska herráðsins. „Hrottafenginn við starfsmenn sína, hlustaði ekki, vann gegn stefnunni, slæmur stjórnunarstíll, og svo framvegis,“ sagði Colin Powell í tölvupósti í júlí sl. um ástæður þess að Flynn var vikið frá, að sögn The Wall Street Journal.

Eindreginn stuðningur Flynns við Trump í kosningabaráttunni mæltist illa fyrir meðal yfirmanna hersins sem hafa forðast afskipti af stjórnmálum. Tveir fyrrverandi yfirmenn hans hvöttu hann til að gæta hófsemi í pólitískum yfirlýsingum en hann sagði í viðtali við Washington Post fyrr á árinu að tilraunir til að þagga niður í honum brytu gegn málfrelsi hans.

Flynn flutti ræðu á flokksþingi repúblikana í júlí og tók þá undir vígorð stuðningsmanna Trumps um að hneppa ætti Hillary Clinton í fangelsi vegna tölvupóstamálsins.

Flynn hefur verið gagnrýndur fyrir að ala á hatri í garð múslima og lýsa baráttunni gegn íslömskum hryðjuverkasamtökum sem heilögu stríði til að bjarga vestrænni siðmenningu vegna hættu sem hann segir stafa af múslimum.

„Ég lít ekki á íslam sem trúarbrögð,“ hefur The Wall Street Journal eftir Flynn. „Ég lít á íslam sem pólitíska hugmyndafræði.“

Hann virðist ekki gera greinarmun á múslimum og íslamistum og telja að allir múslimar séu hættulegir eða geti verið hættulegir vegna þess að þeir aðhyllist íslam. „Óttinn við múslima er RÖKRÉTTUR,“ sagði hann á Twitter í febrúar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert