O'Reilly sakaður um að áreita fimm konur

Bill O'Reilly er einn þekktasti sjónvarpsmaður Bandaríkjanna.
Bill O'Reilly er einn þekktasti sjónvarpsmaður Bandaríkjanna.

Bill O'Reilly, einn þekktasti þulur Fox News, er sakaður um að hafa áreitt að minnsta kosti fimm starfsmenn stöðvarinnar. Stöðin er sögð hafa greitt hundruð milljóna í bætur vegna þessara mála. Þetta kemur fram í frétt New York Times í dag. 

Í fréttinni segir að Fox hafi greitt fimm konum um 13 milljónir dollara, um 1.400 milljónir króna, í skiptum fyrir þögn þeirra og að samþykkja að kæra ekki sjónvarpsstöðina. 

Tvö þessara mála hafa áður komist í fréttir en New York Times segist hafa heimildir fyrir þremur málum til viðbótar. Í tveimur þeirra var um kynferðislegt áreiti að ræða. Konurnar fimm unnu allar annaðhvort við þátt hans, The O'Reilly Factor, eða komu reglulega fram í honum.

Þær saka O'Reilly um að hafa beitt stöðu sinni sem stjórnandi þáttarins til að krefjast „kynferðislegra greiða“ af þeim.

Í yfirlýsingu sem O'Reilly birtir á vefsíðu sinni neitar hann ekki ásökununum beinlínis en segir að staða sín hafi gert sig „viðkvæman“ fyrir kærumálum frá einstaklingum sem vilja að hann borgi sér peninga til að forðast neikvæða umfjöllun. 

Í yfirlýsingunni tekur hann fram að á tuttugu ára ferli sínum hjá Fox News hafi hann aldrei verið kærður. 

O'Reilly er 67 ára. Hann er eitt þekktasta andlit bandarísks sjónvarps. Á hverjum degi horfa um 3,9 milljónir áhorfenda á þáttinn hans, The O'Reilly Factor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert