Neita að slökkva á öndunarvélinni

Charlie litli er í öndunarvél. Nú vilja læknarnir slökkva á …
Charlie litli er í öndunarvél. Nú vilja læknarnir slökkva á henni. Myndin er úr safni. AFP

Foreldar ungbarns í Bretlandi hafa með stuðningi almennings safnað 1,2 milljónum punda, um 170 milljónum króna, fyrir aðgerð fyrir barnið í Bandaríkjunum.

Læknar á sjúkrahúsi í London hafa sagt foreldrunum að þeir telji tímabært að slökkva á öndunarvél barnsins sem það getur ekki lifað án. 

Sonur hjónanna heitir Charlie Gard og er að verða átta mánaða, segir í frétt Sky um málið.

Hann glímir við sjaldgæfan erfðasjúkdóm og læknar á sjúkrahúsinu í London segja að færa ætti hann á sjúkragang þar sem hann fengi líknandi meðferð.

Engin lækning er til við sjúkdómnum sem m.a. lýsir sér í því að vöðvar hans byggjast ekki upp og sömuleiðis virka nýru hans og heili ekki sem skyldi.

En foreldrar drengsins neita að gefa upp vonina. Þau vilja fara með Charlie á sjúkrahús í Badaríkjunum þar sem læknir hefur fallist á að gera á honum nýja aðgerð. 

Það verður hins vegar hlutverk dómara að meta sjúkraskýrslurnar og hvort foreldrarnir fái að fara með hann úr landi og til meðferðar vestanhafs. 

Foreldrarnir hófu að safna fé fyrir aðgerðinni á hópfjármögnunarsíðunni GoFundMe. Um 80 þúsund manns hafa heitið því að styrkja þau verði af aðgerðinni. 

„Við bara getum ekki látið barnið okkar deyja þegar það er hægt að gera eitthvað sem gæti hjálpað honum,“ skrifuðu foreldrarnir á síðuna. „Við gefumst ekkert upp á honum þó að hann sé með sjaldgæfan sjúkdóm. Hann verðskuldar tækifæri. Hann verðskuldar líf rétt eins og allir aðrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert