Segja Rússa endurskrifa söguna

Neðst fyrir miðju má sjá Krímskaga, sem Rússar innlimuðu árið …
Neðst fyrir miðju má sjá Krímskaga, sem Rússar innlimuðu árið 2014. Kort/Google Maps

Rússar freista þess nú að endurskrifa söguna til að grafa undan tilverurétti Eystrasaltsríkjanna, segja háttsettir embættismenn í Litháen. Áróðurinn er keimlíkur þeim réttlætingum sem stjórnvöld í Rússlandi gáfu fyrir innlimun Krímskaga í mars 2014.

Raimundas Karoblis, varnarmálaráðherra Litáen, og embættismenn innan litháíska hersins segjast taka ógnina af rangindaherferð Rússa grafalvarlega.

„Rússland er ógn,“ hefur Guardian eftir Karoblis. „Þeir segja að höfuðborgin okkar Vilnius ætti ekki að tilheyra Litháen þar sem hún sætti hernámi af hálfu Póllands milli fyrstu og annarrar heimsstyrjaldarinnar. Þetta er sagnfræði, að sjálfsögðu, en Rússland notar þetta sem fyrirslátt.“

Karoblis segir áróðrinum stundum dreift gegnum opinbera fréttamiðla Rússlands en oftar af stjórnmálamönnum í Moskvu.

Hann segir að þessa dagana sé þeim fregnum dreift að Klaipeda, þriðja stærsta borg Litháen, hafi aldrei tilheyrt ríkinu; hún hafi verið gjöf Stalín eftir seinni heimsstyrjöldina. Hann segir þróun mála hliðstæða því sem átti sér stað í aðdraganda innlimunar Krímskaga.

„Við erum að tala um ógn gagnvart landamærahelgi Litháen.“

Tomas Ceponis, liðþjálfi hjá samskiptadeild litháíska hersins, segir teymi sitt fylgjast með áróðrinum, sem hann segir svipaðan því sem úkraínskir sérfræðingar urðu varir við áður en Rússar innlimuðu Krímskaga.

Yfirvöld í Litháen óttast að herferðin sé forleikur að raunverulegum hernaði. Ceponis hefur eftir úkraínskum kollegum sínum að hernaðaraðgerðir Rússa þar í landi hafi fylgt á hæla 12 ára rangindaherferðar.

Að sögn liðþjálfans vörðu Rússar miklum tíma og mikilli orku í að smíða „sögu“ í kringum Krímskaga þar sem „Novorossia“ eða „Nýja-Rússland“ var notað til að lýsa svæðum í austurhluta Úkraínu.

„Árið 2003, þegar þeir töluðu fyrst um Nýja-Rússland, var öllum sama um þessi ummæli en nú getum við rakið söguna og skoðað þessar greinar,“ segir Ceponis.

Vladimir Zhirinovsky, fyrrverandi varaforseti neðri deildar rússneska þingsins, er meðal þeirra sem hefur dregið tilverurétt Litháen í efa.

„Samkvæmt honum ætti austurhluti Litháen, þar sem höfðuborgin okkar er, að vera tengdur Hvíta-Rússlandi og vesturhlutinn að vera tengdur Rússlandi.“

Til stendur að senda 1.000 manna herlið til Litháen, sem mun samanstanda af hermönnum frá Hollandi, Belgíu, Noregi og Lúxemborg, undir forystu Þjóðverja. Að sögn Karoblis er það liður í því að senda þau skilaboð að hvorki Litháen né önnur ríki standi ein.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert