Undrast hvassan tón Breta

Gíbraltar
Gíbraltar AFP

Spænsk yfirvöld eru undrandi í hörðum tón Breta varðandi framtíð Gíbraltar eftir að fyrrverandi formaður breska Íhaldsflokksins líkti deilunni um svæðið við Falklandseyjastríðið.

Michael Howard, fyrrverandi formaður Íhaldsflokksins, sagði í gær að Theresa May, formaður flokksins í dag, myndi sýna sömu viðbrögð og forveri hennar í starfi formanns og forsætisráðherra, Margaret Thatcher, gerði fyrir 35 árum þegar Bretar hófu stríð við Argentínu vegna Falklandseyja.

Utanríkiráðherra Spánar,  Alfonso Dastis, segir að spænskum stjórnvöldum hafi brugðið við að heyra af ummælum Howards. Tónninn komi spænsku ríkisstjórninni á óvart því hingað til hafi Bretar þótt rólegir í tíðinni. 

May sagði í gær að hún myndi aldrei leyfa Gíbraltar að sleppa undan yfirráðum Breta. Utanríkisráðherra Bretlands, Boris Johnson, tók í svipaðan streng og sagði að Gíbraltar væri ekki til sölu. Afstaða bresku ríkisstjórnarinnar væri skýr í málefnum Gíbraltar og staða svæðisins myndi ekki breytast. 

Íbúar Gíbraltar eru rúmlega 32 þúsund talsins en Spánverjar réðu yfir Gíbraltar í um tvær aldir. Árið 1704, á tímum spænska erfðastríðsins, hernámu sameinaðar hersveitir Breta og Hollendinga Gíbraltar og með Utrecht-samningnum 1713 fengu Bretar formlega yfirráð yfir svæðinu. Spánn hefur nokkrum sinnum gert kröfu um að fá Gíbraltar til baka en án árangurs. Árið 1969 fékk Gíbraltar heimastjórn en heyrir enn undir Bretland, að því er segir á Vísindavefnum.

Ein meginástæða þess að Bretar ásældust Gíbraltar og hafa ekki viljað afsala sér yfirráðum þar er án efa staðsetningin. Gíbraltarsundið er nefnilega eina tengingin á milli Atlantshafs og Miðjarðarhafs. Með tilkomu Suez-skurðarins á 19. öld, sem tengdi saman Miðjarðarhaf og Rauðahaf og stytti þannig verulega siglingaleiðir milli svæða í breska heimsveldinu, jókst enn mikilvægi þess fyrir Breta að hafa yfirráð yfir Gíbraltarsundi og siglingarleiðinni inn í Miðjarðarhafið. Bæði breski sjóherinn og flugherinn hafa verið með herstöðvar á Gíbraltar og eru enn í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert