Hungrið ýtir fólki á flótta

Hungursneyð vofir yfir Sómölum. Þúsundir þeirra hafa flúið land og …
Hungursneyð vofir yfir Sómölum. Þúsundir þeirra hafa flúið land og mun fleiri eru á flótta innan heimalandsins. AFP

Hungruð og uppgefin nær hún loks áfangastað ásamt börnunum sínum sjö. Hún er komin til Eþíópíu eftir að hafa gengið þrjár dagleiðir frá heimalandinu, Sómalíu.

„Við gengum og sváfum á veginum,“ segir Aisha Yussuf Abdi. „Ég varð að skilja eiginmanninn og foreldra mína eftir svo að börnin mín ættu von um að komast af.“

Aisha er meðal yfir 4.300 sómalskra flóttamanna sem hafa flúið til nágrannlandsins Eþíópíu ár. Hungrið ýtir þeim af stað út í óvissuna. Í Sómalíu vofir hungursneyð nú yfir.

„Fólkið er svangt þegar það kemur hingað. Fjöldi barna og kvenna er vannærður,“ segir Sandra Harlass sem starfar í flóttamannabúðum í Eþíópíu á vegum Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna.

Mikill meirihluti allra barna yngri en fimm ára sem koma í búðirnar er vannærður. „Ástandið er mjög viðkvæmt og þarfnast athygli svo að hægt verði að bjarga mannslífum.“

Sómalar búa sig nú undir mestu þurrka sem orðið hafa í landinu í sjö ár. Ofan á það hafa stríðsátök undanfarinna ára markað spor í allt samfélagið. Flestir þeir sem flýja eru frá Bay, Gedo og Mið-Juba, svæðum þar sem fólk lifir fyrst og fremst á landbúnaði.

„Við áttum bú, áttum kýr og það var matur á borðum. En svo fundum við fyrir því að þurrkarnir voru að koma,“ segir Aisha. Hún segir að fjölskyldan hafi reynt að halda búskapnum áfram en það hafi einfaldlega mistekist. Þá hafi hún orðið að leggja á flótta með börnin. „Allar kýrnar okkar, allt saman, drapst fyrir framan nefið á okkur. Við erum svöng og við þurfum að fá mat.“

Örvæntingin sem fylgir hungri einkennir alla þá sem nú koma í flóttamannabúðirnar í Eþíópíu. AliSaid, átta barna faðir, segist hafa flúið með fjölskylduna vegna þurrkanna og vaxandi óöryggis. „Þurrkarnir eru mjög slæmir,“ segir hann og reynir að róa eitt barna sinna sem grætur. Öll dýrin sem hann hélt á bæ sínum drápust á nokkrum vikum. „Í svona ástandi er svo ekki hægt að fá hjálp vegna þess að AlShabab [hryðjuverkasamtökin] eru þarna.“

Móðir ásamt vannærðu barni sínu á heilsugæslustöð í suðvesturhluta Sómalíu.
Móðir ásamt vannærðu barni sínu á heilsugæslustöð í suðvesturhluta Sómalíu. AFP

Þó að þúsundir hafi flúið land eru mun fleiri á vergangi innan heimalandsins. Á síðustu fjórum mánuðum hafa tæplega 260 þúsund manns flúið heimili sín vegna þurrkanna. 

Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna og samstarfsaðilar hennar vinna í kapphlaupi við tímann til að bæta úr stöðu fólksins svo ástandið verði ekki eins og í hungursneyðinni miklu árið 2011. Það ár létust 250 þúsund Sómalar úr hungri og hundruð þúsunda flúðu landið. 

Sómalía hefur lengi glímt við erfið og flókin vandamál vegna stríðs og matvælaskorts. Yfir 1,4 milljónir Sómala hafa yfirgefið landið af þessum sökum, sumir fyrir áratugum. Flestir halda til í nágrannalöndunum, t.d. Úganda og Eþíópíu. 

Nú þegar enn annar fjöldaflóttinn er í uppsiglingu krefjast þessi ríki þess að reynt verði með öllum ráðum að koma í veg fyrir neyðina sem gæti skapast. Biðla þeir til alþjóðasamfélagsins að leggja hönd á plóg. „Alþjóðasamfélagið verður að upphugsa nýjar leiðir til að aðstoða í þrengingum sem þessum. Fyrst þarf að taka á bráðavanda en samhliða þarf að fjárfesta í og þróa tækifæri fyrir flóttamennina svo þeir geti framfleytt sér,“ segir Surrya Riaz, starfsmaður Flóttamannahjálparinnar í Eþíópíu.

Þurrkarnir eru nú teknir að breiðast út til svæða í Eþíópíu þar sem flóttamenn frá Sómalíu halda til. Sameinuðu þjóðirnar segja því mjög áríðandi að bregðast skjótt við.

„Ástandið í Sómalíu er slæmt,“ segir Aisha sem vonast til að geta snúið aftur heim einhvern daginn. „Það eina sem ég þrái er betra líf fyrir börnin mín svo að þau geti gengið í skóla. Ég vona innilega að við komumst heim.

Fólk á flótta undan þurrkum og stríði hefur leitað skjóls …
Fólk á flótta undan þurrkum og stríði hefur leitað skjóls í búðum í suðvesturhluta Sómalíu. Margir fara svo yfir landamærin til Eþíópíu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert