Verja ákvörðun breska sjóhersins

Gíbraltar-kletturinn. Spánn í bakgrunni.
Gíbraltar-kletturinn. Spánn í bakgrunni. AFP

Breska utanríkisþjónustan hefur komið til varnar ákvörðun sjóhersins, sem skipaði spænsku herskipi að yfirgefa landhelgi Gíbraltar. Talsmaður utanríkisþjónustunnar segir atvikið hafa verið brot á alþjóðlegum hafréttarlögum.

Gíbraltar, sem er útlenda Bretlands á suðurodda Spánar, hefur í aldaraðir verið eftirsótt af spænskum stjórnvöldum, sem viðurkenna ekki hafið í kring sem breskt hafsvæði.

Siglingar spænskra skipa um svæðið eru tíðar og myndu venjulega viðgangast án nokkurra athugasemda. Spænsku eftirlitsskipi, Infanta Cristina, var hins vegar sagt að yfirgefa hafsvæðið fyrr í dag. Skilaboðin komu frá deild sjóhersins sem staðsett er í Gíbraltar.

Málefni Gíbraltar viðkvæm

Kastljósið beinist nú að Gíbraltar eftir að ESB lýsti því yfir að sambandið myndi styðja tilkall Spánverja til landsvæðisins eftir að Bretar ganga úr sambandinu. Þá gaf Michael Howard, fyrrverandi leiðtogi breska Íhaldsflokksins, það til kynna að Theresa May ætti að vera reiðubúin að hefja stríð til að verja útlenduna, eins og forveri hennar Margaret Thatcher gerði í tilviki Falklandseyja.

Og þótt atvikið í dag hafi verið minni háttar, eru málefni Gíbraltar orðin viðkvæm í Bretlandi. Svo mjög að varnarmálaráðuneytið, sem alla jafna hefur verið boðið og búið til að ræða um mál tengd sjóhernum, vísaði fjölmiðlum á utanríkisþjónustuna, samkvæmt umfjöllun The Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert