Prinsinn ræddi við eftirlifendur

Vilhjálmur prins, Kate og Harry prins.
Vilhjálmur prins, Kate og Harry prins. AFP

Vilhjálmur Bretaprins, kona hans Kate Middleton og bróðir Harry prins ræddu öll einslega við þá sem lifðu af árásina við breska þinghúsið 22. mars síðastliðinn og fjölskyldur fórnarlambanna í dag.

Breska konungsfjölskyldan tók þátt í minningarstund um fórnarlömbin sem nefnist „stund vonar“ og fór fram í Westminster Abbey sem stendur við torg þinghússins þar sem árásin átti sér stað. 


 

Árásarmaðurinn Khalid Masood náði að myrða fjóra, þar af einn lögreglumann, Keith Palmer, sem stóð vörð um þinghúsið áður en lögreglan skaut hann til bana.

Masoon keyrði upp á gang­stétt West­minster-brú­ar­inn­ar þar sem þrír vegfarendur létust. Fórnarlömbin voru: Leslie Rhodes, 75 ára gluggaþvottamaður á eftirlaunum, Aysha Frade, 44 ára skólastjórnandi, og Kurt Cochran, 54 ára bandarískur ferðamaður.

Melissa, eiginkona Cochran, tók þátt í minningarstundinni en hún er í hjólastól því hún fótbrotnaði, braut rifbein og hlaut skurð á höfði eftir árásina.  

Vilhjálmur Bretaprins, kona hans Kate Middleton og John Hall prófastur …
Vilhjálmur Bretaprins, kona hans Kate Middleton og John Hall prófastur Westminster. AFP

Vilhjálmur prins las upp úr Biblíunni um miskunnsama samverjann á minningarstundinni. Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna og  Amber Rudd, varnarmálaráðherra Bretlands, héldu einnig stutta ræðu. 

Alls tóku um 1.800 manns þátt í athöfninni, þar af margir sem höfðu lent í árásinni. Þeir voru enn með sýnilega áverka.  

John Hall, prófastur Westminster, leiddi athöfnina. Hann sagði að árásin hefði gert fólk ráðvillt og ringlað og líklega kæmu aldrei í ljós skýr svör um hver ástæða Masoon hafi verið.  

Eftir árásina voru 12 manns handteknir en þeim hefur öllum verið sleppt án frekari aðgerða. Talið er að hann hafi verið einn að verki og engar vísbendingar eru um að hann hafi rætt áætlan­ir um árás­ina við þá sem nærri hon­um stóðu.

Breska lög­regl­an hefur gefið út að Masood hefði haft aug­ljós­an áhuga á ji­had, þ.e. heil­ögu stríði íslamstrú­ar, og að aðferðir hans hafi verið í sam­ræmi við orðræðu leiðtoga Rík­is íslams.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert