Reckless aftur til íhaldsmanna

Mark Reckless ásamt eiginkonu sinni Catriona
Mark Reckless ásamt eiginkonu sinni Catriona AFP

Breski stjórnmálamaðurinn Mark Reckless hefur sagt skilið við Breska sjálfstæðisflokkinn (UKIP) og gengið á ný til liðs við íhaldsmenn samkvæmt fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph. Reckless gekk úr röðum íhaldsmanna árið 2014 en hann var þá þingmaður Íhaldsflokksins. Hann missti þingsæti sitt hins vegar í þingkosningunum árið eftir.

Reckless var síðar kjörinn á þing Wales fyrir UKIP. Forystumenn UKIP telja að Reckless eigi að afsala sér þingsætinu sem hann hafi vegna atkvæða flokks þeirra. Fram kemur hins vegar í fréttinni að Reckless telji ekki þörf á því þar sem hann hafi ekki gengið formlega í Íhaldsflokkinn sem slíkan heldur aðeins þingflokk íhaldsmanna á velska þinginu. 

Þegar Reckless yfirgaf Íhaldsflokkinn sagði hann af sér og var fyrir vikið kosið á nýjan leik í kjördæminu sem hann var fulltrúi fyrir. Sigraði hann kosninguna sem fulltrúi UKIP og sat fram að þingkosningunum árið eftir þar sem hann tapaði sætinu sem fyrr segir. 

Stutt er síðan Douglas Carswell sagði sig úr UKIP en hann var eini þingmaður flokksins á breska þinginu. Hann hafði áður verið þingmaður Íhaldsflokksins líkt og Reckless en þeir eru góðir vinir. Carswell hafði ítrekað lent upp á kant við forystusveit UKIP.

Reckless lofar Theresu May, forsætisráðherra Bretlands og leiðtoga Íhaldsflokksins, í bréfi þar sem hann útskýrir ákvörðun sína nú. Sagðist hann yfirgefa UKIP sáttur í ljósi þess að það markmið hafi náðst að Bretland væri á leiðinni úr Evrópusambandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert