Bandaríkin gerðu árás í Sýrlandi

Bandaríkjaher gerði loftárás á herstöð Sýrlandshers í Shayrat í Homs-héraði í nótt. Árásin var gerð í kjölfar efnavopnaárásar sem Sýrlandsher er grunaður um að hafa gert á bæ í Idlib-héraði. Að minnsta kosti fjórir létust í árás Bandaríkjahers og var herstöðin gjöreyðilögð í árásinni. 

Samkvæmt upplýsingum frá mannúðarsamtökunum Syrian Observatory for Human Rights var herforingi í flugher Sýrlands meðal þeirra sem létust í árásinni. Hinir þrír voru óbreyttir hermenn. 

Herflugstöðin er nánast algjörlega í rúst, flugbrautir, eldsneytistankar og loftvarnarkerfi voru sprengd í loft upp segir í tilkynningu Syrian Observatory.

AFP

Meðal annars voru þar orrustuþotur af gerðinni Sukhoi-22, Sukhoi-24 og MiG-23. Bandarískar leyniþjónustustofnanir telja að herþotur sem gerðu efnavopnaárás í Idlib-héraði hafi komið frá herstöðinni í Shayrat. Þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, H.R. McMaster, segir að þess hafi verið gætt að hæfa ekki geymslur sem hýsa sarín-gas í herstöðinni. 

Bandarísk stjórnvöld segja að yfirmenn Rússlandshers í Sýrlandi hafi verið upplýstir fyrir fram um árásina til þess að koma í veg fyrir manntjón.

I
I AFP

Samkvæmt upplýsingum úr bandaríska varnarmálaráðuneytinu var 59 Tomahawk-eldflaugum skotið upp klukkan 04:40 að sýrlenskum tíma, klukkan 01:40 að íslenskum tíma, af tundurspilli í Miðjarðarhafi.

Í sjónvarpsávarpi forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, kom fram að árásin hafi verið svar við efnavopnaárásinni fyrr í vikunni. Hann hvatti allar siðmenntaðar þjóðir til þess að veita aðstoð við að ljúka stríðinu í Sýrlandi. Tugir almennra borgara, þar á meðal fjölmörg börn, létust í efnavopnaárásinni á bæinn Khan Sheikhoun í Idlib-héraði.

Donald Trump flutti ávarp í kjölfar árásarinnar.
Donald Trump flutti ávarp í kjölfar árásarinnar. AFP

Trump ávarpaði þjóð sína frá Mar-a-Lago í Flórída og lýsti hann Bashar al-Assad Sýrlandsforseta sem einræðisherra sem hafi gert hryllilega efnavopnaárás á saklaust fólk. Trump segir árásina nú gerða til þess að verja þjóðaröryggi Bandaríkjanna til að koma í veg fyrir að efnavopnum sé beitt.

AFP

„Í kvöld bið ég allar siðmenntaðar þjóðir að vinna með okkur að því að ljúka slátruninni og blóðbaðinu í Sýrlandi og eins að binda endi á hryðjuverk af öllum gerðum og tagi,“ sagði Trump í ávarpi sínu.

Stjórnvöld í Rússlandi segja árás Bandaríkjahers í Sýrlandi árás á sjálfstætt ríki. Forseti Rússlands, Vladimír Pútín, álítur loftárás Bandaríkjahers á herstöð í Sýrlandi árás á sjálfstætt ríki, segir talsmaður forsetans, Dmitrí Peskov, í samtali við rússneskar fréttastofur í morgun. Með því séu Bandaríkjamenn að brjóta gegn alþjóðasáttmálum.

Árás Bandaríkjahers mun hafa mjög skaðleg áhrif á samband Bandaríkjanna og Rússlands sem ekki var gott fyrir, segir Peskov og eins hafa stjórnvöld í Íran gagnrýnt árásina harðlega. Trump fyrirskipaði árásina og vekur það upp spurningar um lögmæti hennar. Því þar sem hann fór ekki með málið fyrir þingið þá telja ýmsir lögspekingar að það jafngildi stríðsyfirlýsingu. Bandaríkin taka þegar þátt í stríðinu í Sýrlandi með aðild að árásum á vígasamtökin Ríki íslams. Það er gert með samþykkt 2001, Authorization for the Use of Military Force (AUMF).

Aftur að móti veki það upp spurningar þegar árás er gerð á stjórnvöld í sjálfstæðu ríki. Þingmaður demókrata, Tim Kaine, skrifar á Twitter: Forsetinn fer í hernað gegn Sýrlandi án þess að þingið greiði atkvæði um það. Brot á stjórnarskrá?

Breska ríkisstjórnin styður af heilum hug loftárásir Bandaríkjahers á sýrlenska flugherstöð, segir talsmaður ríkisstjórnarinnar í yfirlýsingu sem send var út í morgun. Ríkisstjórnin telur að um viðeigandi viðbrögð við villimannslegri efnavopnaárás sé að ræða og með árásinni í nótt sé verið að reyna að koma í veg fyrir frekari árásir stjórnvalda í Sýrlandi.

Yfirvöld í Sádi-Arabíu segjast aftur á móti styðja fullkomlega við loftárásir Bandaríkjahers sem gerðar voru á hernaðarmannvirki þeirra sem bera ábyrgð á notkun efnavopna á saklausa borgara, segir ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis Sádi-Arabíu í samtali við SPA fréttastofuna. Hann segir Trump hafa sýnt hugrekki með því að grípa til aðgerða á sama tíma og alþjóðasamfélagið sæti hjá.

Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, styður fyllilega á bak við Bandaríkin sem hafi sent skýr skilaboð til stjórnvalda í Sýrlandi vegna efnavopnaárásarinnar fyrr í vikunni.

BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert