Er sagan að endurtaka sig?

Frá bænum Khan Sheikhun en verið er að rannsaka sýni …
Frá bænum Khan Sheikhun en verið er að rannsaka sýni úr jarðvegi. AFP

Rússar ætla að veita Sýrlandsstjórn aðstoð við að styrkja loftvarnir sínar í kjölfar árásar Bandaríkjahers á herstöð í Homs í nótt. Ástæða árásarinnar er efnavopnaárás sem gerð var á bæ í Idlib-héraði. Margir telja að stjórnvöld í Sýrlandi hafi þar ráðist gegn eigin þjóð en því neita yfirvöld í Sýrlandi. Utanríkisráðherra Írans segir söguna frá árinu 2003 vera að endurtaka sig og undir það taka fleiri stuðningsmenn forseta Sýrlands, Bashar al-Assad. Stjórnarandstæðingar eru á öðru máli og hvetja Bandaríkjamenn til þess að halda árásum áfram. Þeim verður væntanlega að ósk sinni ef marka má orð framkvæmdastjóra NATO.

Nýtt upphaf í sex ára stríði

Árásin í nótt markar nýtt upphaf í stríðinu í Sýrlandi sem hefur staðið yfir í rúm sex ár. Stríði sem hefur kostað yfir 300 þúsund almenna borgara lífið og sent helming þjóðarinnar á flótta eða vergang í eigin landi.

Loftárásin, sem var gerð klukk­an 04:40 að sýr­lensk­um tíma, klukk­an 01:40 að ís­lensk­um tíma, er sú fyrsta sem Bandaríkin gera beint á stjórnvöld í Sýrlandi því hingað til hafa afskipti þeirra takmarkast af stuðningi við uppreisnaröfl og árásir á vígasamtök.

Talsmaður rússneska varnarmálaráðuneytisins, Igor Konashenkov.
Talsmaður rússneska varnarmálaráðuneytisins, Igor Konashenkov. AFP

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur harðlega fordæmt árásina og hafa yfirvöld í Moskvu farið fram á að neyðarfundur verði haldinn í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Eins hafa yfirvöld í Íran fordæmt árásina en ríkin tvö eru meðal helstu bandamanna Assad forseta í alþjóðasamfélaginu. 

Þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, H.R. McMaster, segir að þess hafi verið gætt að hæfa ekki geymslur þar sem sarín-taugagas er geymt. Því það hefði getað haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér fyrir almenning.

Flaugunum var skotið af tveimur tundurspillum, USS Porter og USS Ross sem eru í austanverðu Miðjarðarhafinu. Rússneski herinn var varaður við fyrirfram í gegnum beint símasamband milli herjanna tveggja, Bandaríkjanna og Rússlands. McMaster segir að allt hafi verið gert til þess að lámarka skaða árásarinnar á líf þeirra sem voru í herstöðinni.

Donald Trump fyrirskipaði árásina beint án þess að hún væri rædd á Bandaríkjaþingi og telja andstæðingar hans að þetta jafngildi stríðsyfirlýsingu. Það sama segja sýrlensk og rússnesk yfirvöld en ekki eru allir sammála þar um og virðast margir þjóðarleiðtogar telja að Bandaríkjaforseti hafi brugðist rétt við. 

AFP

Heimskuleg og óábyrg árás

Forsetaskrifstofa Sýrlands hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna árásarinnar þar sem fram kemur að hún hafi verið heimskuleg og óábyrg. „Það sem Bandaríkin gerðu er bæði heimskulegt og óábyrgt og sýnir svart á hvítu skammsýni og blindu stjórnvalda og hersins þegar kemur að raunveruleikanum,“ segir í yfirlýsingu forsetans, Bashar al-Assad.

Utanríkisráðherra Írans, Mohammad Javad Zarif, minnir á það sem gerðist árið 2003 og segir söguna endurtaka sig. Lygafréttir um notkun efnavopna fær Bandaríkjamenn í hernað fyrst árið 2003 í Írak og nú í Sýrlandi. Hann ber þar saman þegar Bandaríkin gerðu innrás í Írak sem byggðu á fréttum um gjöreyðingarvopn væri að finna í Írak. Hins vegar hafa þessi meintu gjöreyðingarvopn ekki  enn fundist.

Næstu klukkustundir og dagar munu væntanlega skera úr um framhaldið en Pútín hefur boðað þjóðaröryggisráðið á sinn fund síðar í dag þar sem næstu skref verða rædd. Rússar hafa þegar fallið frá samkomulagi við Bandaríkjamenn um loftöryggi í Sýrlandi en tenging milli herja landanna tveggja verði áfram opin. Hins vegar verði ekki skipst á upplýsingar um tenginguna. 



AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert