Stokkhólmur: Þetta vitum við

Hryðjuverkaárás í Stokkhólmi.
Hryðjuverkaárás í Stokkhólmi. AFP

Að minnsta kosti  þrír eru látnir og átta særðir eftir að vörubíl var ekið inn í mannfjölda fyrir framan  Åhléns City-versl­un­ar­miðstöðina í miðborg Stokkhólms í dag. „Það hefur verið ráðist á Svíþjóð. Allt bendir til hryðjuverkaárásar,“ sagði forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven, í dag. Einn hefur verið handtekinn að sögn ráðherrans.

Tilkynnt var um árásina klukkan 14.53 að staðartíma eða  klukkan 12.53 að íslenskum tíma.

Sjónarvottar segja vettvang árásarinnar hryllilegan. Sjá má þykkan reyk stíga til himins en   grátandi fólk, gler, blóð og lík á jörðu niðri.  Lögregla keyrir nú um borgina með hátalara þar sem fólki er sagt að fara beint heim til sín og forðast mannfjölda. Heyra má í þyrlum á ferðinni yfir miðborg Stokkhólms og tugir lögreglu- og sjúkrabíla eru á ferðinni.

Hér má sjá útskýringamynd frá atburðarrásinni birt með leyfi Aftonbladet.

Aftonbladet

Myndir frá vettvangi sýna stóran bláan vörubíl sem var ekið hálfum inn í verslunarmiðstöðina. Bílnum var stolið frá sendibílaþjónustunni Spendrups. Talsmaður fyrirtækisins sagði að ökumaður vörubílsins hefði verið að flytja vörur á veitingastað við Caliente på Adolf Fredriks Kyrkogata sem er hliðargata út frá Drottninggatan.

Þegar bílstjórinn var við það að fara að afferma vörubílinn stökk manneskja inn og ók í burtu. Bílstjóri Spendrups er í áfalli að sögn fyrirtækisins.

Lögregla hefur staðfest að skot hafi heyrst í miðborginni, þá helst við neðanjarðarlestarstöðina Fridhemspl­an.

Ekkert liggur fyrir um þann sem var handtekinn eða mögulegar ástæður árásarinnar samkvæmt vef SVT.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert