Twitter hætt við málaferli gegn Bandaríkjastjórn

Bandarísk stjórnvöld eru hætt við að krefjast þess að Twitter …
Bandarísk stjórnvöld eru hætt við að krefjast þess að Twitter gefi upp auðkenni þeirra sem gagnrýnt hafa forsetann. AFP

Forsvarsmenn samfélagsmiðilsins Twitter hafa hætt við málaferli gegn bandarískum stjórnvöldum, eftir að embættismenn bandarískra alríkisstofnanna hættu við að krefjast þess að Twitter gæfi upp auðkenni þeirra notenda sem hafa gagnrýnt Donald Trump og stjórn hans.

Greint var frá því í gær að Twitter hefði verið beðið um að gefa upp auðkenni, notanda eða notenda @ALT_USCIS. Síðunni er haldið úti af einstaklingum sem segjast vera starfsmenn bandaríska landamæraeftirlitsins. Hafa færslurnar sem þar eru birtar verið mjög gagnrýnar í garð nýja forsetans.

Forsvarsmenn Twitter höfnuðu beiðninni og sögðu hana brjóta í bága við málfrelsisgrein stjórnarskrárinnar.

Fréttavefur BBC hefur eftir starfsmanni bandaríska dómsmálaráðuneytisins að sú beiðni hafi nú verið afturkölluð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert