Borgarstjóri sakaður um barnaníð

Ed Murray, 61 árs, hefur vísað ásökununum á bug og …
Ed Murray, 61 árs, hefur vísað ásökununum á bug og segir þær afar sársaukafullar. AFP

Ed Murray, borgarstjóri Seattle í Washington í Bandaríkjunum, hefur verið sakaður um að misnota barn kynferðislega fyrir um 30 árum síðan. Murray, sem þykir framsækinn og hefur greint frá því opinberlega að hann sé samkynhneigður, hefur neitað ásökununum.

Hann er demókrati og hugðist bjóða sig fram til endurkjörs á þessu ári.

Það var 46 ára maður sem lagði fram kæru gegn borgarstjóranum en hann segir hann hafa greitt sér fyrir kynlíf þegar hann var aðeins 15 ára gamall. Þar sem hann hafi verið háður eiturlyfjum hafi hann verið reiðubúinn „til að gera hvað sem er“ fyrir 10-20 dollara.

Samkvæmt kæru mannsins hittust hann og Murray nokkrum sinnum.

Borgarstjórinn sagði við blaðamenn í gær að ásakanirnar væru „einfaldlega ósannar“ og afar sársaukafullar fyrir sig og eiginmann sinn. Sagði hann meint fórnarlamb eiga við erfiðleika að stríða.

Þá hét hann því að sigra í komandi kosningum.

„Ég mun halda áfram að reka þessa borg. Ég mun halda til streitu framboði mínu til endurkjörs. Ég hef aldrei fengið neitt upp í hendurnar en ég hef aldrei gefist upp og mun ekki gefast upp.“

Annar maður að nafni Jeffrey Simpson, sem er 49 ára, hefur einnig sakað Murray um kynferðisbrot. Lögmaður borgarstjórans segir tímasetningar ásakananna hins vegar ekki tilviljun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert