Kínverskir miðlar boða „nýtt tímabil“

Forsetarnir áttu tveggja daga fund í Flórída.
Forsetarnir áttu tveggja daga fund í Flórída. AFP

Fjölmiðlar í Kína hafa farið fögrum orðum um  heimsókn forsetans Xi Jinping til Bandaríkjanna og fjallað minna en margir aðrir um árásir Bandaríkjamanna á herstöð í Sýrlandi, sem átti sér stað á sama tíma og Donald Trump Bandaríkjaforseti tók á móti kollega sínum.

Samkvæmt Guardian höfðu stjórnvöld í Pekíng vonast til þess að geta notað hinn tveggja daga fund forsetanna til að treysta stöðu Xi sem valdamikils leiðtoga sem gæti „tamið“ hinn hvikula Trump.

Fréttir og myndir frá heimsókninni rötuðu á forsíðu dagblaðs Kommúnistaflokksins en umfjöllunin um Sýrland var grafin á síðu 11. Þá var lítið getið um árásirnar í China Daily, sem kemur út á ensku, en „nýju tímabili“ í samskiptum Kínverja við Washington lýst yfir í fyrirsögnum.

Samkvæmt opinberu fréttastofunni Xinhua hefur Xi boðið Trump að heimsækja Kína á þessu ári. Þá er Bandaríkjaforseti sagður hafa þáð boðið með þökkum og vonast til að komast sem allra fyrst.

Sérfræðingar segja Kínverja, sem ásamt Rússum hafa ítrekað beitt neitunarvaldi sínu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna gegn ályktunum gegn Bashar al-Assad Sýrlandsforseta, hafa verið ósátta við það að árásir Bandaríkjanna skyggðu á fund Xi og Trump.

Að sögn Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, upplýsti Trump kollega sinn um árásirnar undir lok kvöldverðar þeirra á fimmtudag. Sagði hann Xi hafa gefið til kynna skilning sinn á því að grípa þyrfti til aðgerða þegar líf barna væru í húfi.

Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins sagði hins vegar að Kínverjar væru mótfallnir hernaðaraðgerðum í alþjóðasamskiptum en fordæmdi ekki beint aðgerðir Bandaríkjamanna.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert